Fréttir
  • Haustlitaferð 2013-103

4.10.2013

Haustlitaferð Rótarýklúbbsins Reykjavík-Breiðholt

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt fór í sína árlegu haustlitaferð laugardaginn 28. september. Sigurður Bjarnason var aðalleiðsögumaður ferðarinnar,en auk þess skýrði Ingvar Pálsson frá jarðfræði og landslagi svæðisins. sem um  var farið. 

Haustlitaferð 2013-037Erla Ófeigsdóttir, eiginkona Ingvars , sagði frá lífi og heimilisháttum í Herdísarvík á tímum Einars Ben. og Hlínar. Fyrst var farið í Herdísarvík og skoðað hús Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson, sem þar bjuggu frá 1932-1940.  1940 lést Einar en Hlín bjó í húsinu fram til 1957.  Síðan var Sjóminjasafnið og Húsið á Eyrarbakka heimsótt undir leiðsögn Lýðs Pálssonar, staðarhaldara. Næst var haldið til Stokkseyrar.  Leiðsögumaður þar var Siggeir Ingólfsson.  Lista- og menningarhúsið var heimsótt,  þar sem hópurinn hitti m.a Björgvin Tómasson, orgelsmið, sem þar er með sitt smíðaverkstæði og Elvar G. Þórðarson, listmálara.  Að lokum var farið í Forsæti, þar sem Ólafur Sigurjónsson, safnstjóri og Sigríður á Grund tóku á móti okkur.  Þar gafst okkur tækifæri til að skoða heimasmíðuð verkfæri, m.a. rokka, flugvélaspaða og prjónastokka.   Frábær ferð í góðu veðri.Lagt var af stað frá Breiðholtskirkju klukkan 9:00 og haldið til Herdísarvíkur. Á þeirri leið fræddi Ingvar Pálsson, klúbbfélagi, ferðafélagana um jarðfræði og landslag svæðisins, sem um var farið. Erla Ófeigsdóttir, eiginkona Ingvars, sagði síðan frá lífi og heimilisháttum í Herdísarvík á þeim tíma, er Einar Benediktsson og Hlín Johnson bjuggu þar (1932-1940).  Einar lést í byrjun árs 1940 en Hlín hélt búskap áfram til ársins 1957, en þá lagðist byggð af í Herdísarvík. Hlín kvaddi þennan heim árið 1965, tæplega níræð. Í Herdísarvík var fyrsti áfangastaður ferðarinnar. Þar var húsið skoðað, sem reist var 1932, og drukkið kaffi. Sigurður Bjarnason, klúbbfélagi, bætti hér nokkru við þann fróðleik, sem áður hafði komið fram í frásögn Erlu. Minntist hann einkum á útiverk, sjósókn og samgöngur á þessum stað, í Selvogi og í Ölfusi. Svo einkennilega vildi til, að þennan dag, 28. September voru liðin 78 ár frá því að Hlín og Einar afhentu Háskóla Íslands, með gjafabréfi, Herdísarvík. Áður hafði Einar verið útnefndur heiðursprófessor við háskólann.

Haustlitaferð 2013-044Hélt Sigurður um hljóðnemann allt til þess er komið var til Eyrarbakka og var þá komið undir hádegi. Þar tók á móti hópnum Lýður Pálsson, staðarhaldari, skýrði hann frá sögu Hússins, sem er í alla staði hin merkasta. Eftir að hafa skoðað Húsið, ýmsa muni, myndir og sýningu sem þar er að sjá var haldið yfir í sjóminjasafnið, sem er í húsi skammt frá. Það hús geymir ýmis tól og tæki frá sjósókn fyrri tíma, svo sem tíæring undir seglum. Þennan stað á Bakkanum ætti engin, sem lítur við í Húsinu, að láta óskoðaðan. Eftir að hafa borðað bragðgóða humarsúpu og drukkið kaffi í Rauða Húsinu var haldið af stað til Stokkseyrar.

Haustlitaferð 2013-146Haustlitaferð 2013-150Siggeir Ingólfsson búsettur á Eyrarbakka, en fæddur og uppalin á Stokkseyri, tók nú við leiðsögn og sagði frá ýmsu sem fyrir augu bar og öðru sem tilheyrir liðinni tíð. Á Stokkseyri var ekið að gamla frystihúsinu, sem er Lista-og Menningarhús staðarins. Í suðurenda þess er orgelsmiðurinn Björgvin Tómasson með sitt smíðaverkstæði. Hann bauð rótarýfélaga velkomna og hélt fróðlegt erindi um sína iðngrein (listgrein), svaraði spurningum sem að honum var beint og bauð síðan gestum að skoða verkstæðið. Hann hefur smíðað milli 30-40 orgel í ýmsar kirkjur. Þótti mönnum mikið til um það flókna handverk sem hér fer fram og fóru margs vísari af hans fundi.

Haustlitaferð 2013-163Næst var komið að því að heimsækja listmálarann Elvar G. Þórðarson. Hann hefur manna lengst starfað í þessu húsi (Lista-og Menningarhús) og hér er hans vinnustofa. Elvar vísaði rótarýfélögum inn í stóran sal þar sem gat að líta stórt kort af Íslandi. Inn á þessu korti er komið fyrir ljósaperum sem tákna vitana allt í kringum landið (106). Kviknar ljós þegar kveikt er á perum kortsins einni eftir annarri réttsælis. Haustlitaferð 2013-164Samtímis var leikið lag Páls Ísólfssonar Brennið þið vitar, við texta Davíðs Stefánssonar. Karlakórinn Þrestir söng. Vinnustofa Elvars er þakin fallegum málverkum, gestum til augnayndis. Hér báru ferðanefndarmenn fram hressingu í drykkjar-og brauðformi.

Haustlitaferð 2013-090Áfram var síðan haldið austur á bóginn í gegnum þorpið og austur með ströndinni og upp með Þjórsá undir leiðsögn Geira (Siggeirs). Hér er hann fæddur og uppalin og gjörþekkir allt umhverfi og mannlíf. Þegar komið var að safnhúsinu við Forsæti tók á móti gestum og bauð velkomna Ólafur Sigurjónsson, safnstjóri. Í þessu húsi getur að líta frábær handverk ýmiskonar. Heimasmíðuð verkfæri, rokkar, flugvélaspaðar, prjónastokkar og fleiri gripir prýddu salinn og ekki skal gleyma útskurði Sigríðar á Grund, sem er löngu landskunnur. Duldist engum að hér hafa listamenn verið að verki. Á veggjum héngu ljósmyndir, sumar teknar við ótrúlegustu kringumstæður.

Haustlitaferð 2013-109Haustlitaferð 2013-114Var nú nokkuð liðið á dag en talið rétt að gera svolítinn stans á hlaðinu í Þjórsárveri á leiðinni heim, virða fyrir sér útsýnið, sem var frábært, og bergja á þeim veigum sem í boði voru, að smekk hvers og eins.

Á Selfossi kvöddum við okkar ágæta sagnamann Geira og héldum til Reykjavíkur.

Bar nú fátt til tíðinda þar sem eftir var ferðarinnar og til Reykjavíkur komið. Að leiðarlokum var ekki annað að sjá og heyra en að þátttakendurnir 33 að tölu, teldu deginum vel hafa verið varið. Ekki skemmdi fyrir að veður var eins og best verður á kosið, sól og blíða allan daginn.

Sigurður Bjarnason - ljósmyndir: Jóhannes Long