Fréttir
  • Forseti klúbbsins ásamt umdæmisstjóra.

11.9.2013

Umdæmisstjóri ræddi stöðu Rótarý og starfið framundan

Björn B. Jónsson, umdæmisstjóri og eiginkona hans Jóhanna Róbertsdóttir heimsóttu klúbbinn 9. september.

Venju samkvæmt átti umdæmisstjóri fund með stjórn klúbbsins áður en hann flutti kynningarræðu sína á fundinum með klúbbfélögum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti klúbbsins, bauð umdæmisstjórahjónin velkomin en Björn B. Jónsson, sem hefur verið í forystu skógræktarmanna og formaður Ungmennafélags Íslands, sagði það hafa glatt sig mikið að sjá nokkra klúbbfélaga, sem starfað hefðu á þeim vettvangi. Hann kvað það hafa verið einkar fróðlegt að fara yfir ítarlegar hugmyndir Vilhjálms forseta klúbbsins um starfsemi Rótarý almennt í bráð og lengd.
Jóhanna Róbertsdóttir, Björn B. Jónsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.Björn fjallaði um vöxt Rótarýhreyfingarinnar og gat m.a. um umtalsverða  eflingu hennar í Rússlandi og á Indlandi. Rótarý starfar í meira en 200 löndum  og meðlimirnir eru rúmlega 1200 þúsund. Umdæmisstjóri sagði að hin nýja  fimmta þjónustuleið Rótarý, ungmennaþjónustan, hefði  tekist vel og vex hún  mjög hratt. Unga fólkið gengur síðan í rótarýklúbba, ekki síst þá sem eru virkir á Internetinu.
Einkunnarorð alþjóðaforsetans  Ron Burton eru: „Virkjum Rótary til betra lífs“, í íslenskri þýðingu. Hann hvetur til þess að starfið sé uppbyggilegt og skemmtilegt til að geta virkjað Rótarý til betra lífs og hafa sýn og vilja til að koma hugmyndum í verk.Björn B. Jónsson, umdæmisstjóri.
Þá nefndi umdæmisstjóri að yfirskrift þings íslenska rótarýumdæmisins, sem haldið verður á Selfossi  11. og 12. október, sé „Auður jarðar“. Fjallað verður um þemað frá ýmsum hliðum. Allir rótarýfélagar eiga þátttökurétt á þinginu en forsetar, ritarar og gjaldkerar klúbbanna munu fá sérstaka fræðslu í "vinnustofum". 
Hluti fundarmanna á klúbbfundinum með umdæmisstjóra.Mörg alþjóðleg verkefni tengjast Rótarýsjóðnum og þar nýtast vel framlög frá íslensku rótarýfólki sem og öðrum meðlimum hreyfingarinnar um allan heim.Umdæmisstjóri flutti fróðlegt erindi um störf hreyfingarinnar.

Nefndi Björn fáein dæmi;  öflun neysluvatns í þróunarlöndum, byggingu skóla, baráttuna gegn lömunarveiki, herferðir gegn ólæsi og hvatningu til kvenna í fjarlægum löndum um að koma út á vinnumarkaðinn.  Senn verður lömunarveikinni útrýmt og þá skapast tækifæri fyrir Rótarý að hefjast handa um nýtt stórverkefni á heimsvísu.
Umdæmisstjóri lagði áherslu á að Rótarýsjóðurinn væri  flaggskip hreyfingarinnar. Eru framlög  íslenskra rótarýmanna til sjóðsins orðin samtals 1 milljón Bandaríkjadollara. Hafa þau skilað sér til margvíslegra þýðingarmikilla verkefna að mannúðarmálum á hinum ýmsu svæðum jarðar. Nú mun Annual Fund-framtíðarsjóðurinn greiða til baka hluta af framlögum sem rótarýklúbbar láta til hans renna. Þeir peningar munu nýtast til verkefna á vegum klúbbanna. Áformað er að Rótarýhreyfingin á Íslandi noti þennan möguleika til að stofna til viðamikils, alíslensks verkefnis að friðarmálum í eigin nafni.
                                                                                                               Texti og myndir Markús Örn Antonsson