Fjölsóttur fundur í lok starfsársins
Að venju komu klúbbfélagar ásamt mökum saman til starfsskilafundar og kvöldverðar.
Fundurinn var haldinn á Grand Hótel Reykjavík mánudaginn 24. júní. Friðrik Alexandersson, fráfarandi forseti, setti fundinn en fól Elíasi Ólafssyni, formanni undirbúningsnefndar, fundarstjórn. Elías rifjaði upp að við slík tækifæri væru fluttar tvær ræður; fyrrverandi forseti „færi á brokki yfir farinn veg og viðtakandi forseti kæmi með loforðalista fyrir næsta starfsár.“ Gekk þetta eftir.
Friðrik, fráfarandi forseti, tók til máls og þakkaði fyrir tækifærið sem hann hefði fengið til að vera í forystu klúbbsins sl. starfsár. Hann upplýsti að sér hefði liðið vel í hlutverki forseta og hefði haft gagn og gaman af að sinna starfinu. Fyrir skömmu hefði einn klúbbfélaginn spurt hvort hann væri ekki feginn að losna úr þessu starfi .
„Við þetta fór margt í gegnum hugann. Vissulega verður það notalegt að þurfa ekki að undirbúa fundi því sem næst hvern mánudag. En hitt get ég játað, að það var mun annasamara starf fyrir mig að vera stallari á starfsárinu 1996 til 1997,“ upplýsti Friðrik. Hann sagðist ekki hafa ætlað að stjórna einn. Við hlið sér hefði hann haft geysilega öfluga einstaklinga í stjórn. Sér væri ljúft að færa þeim innilegar þakkir fyrir samstarfið.
Af einstökum viðburðum á liðnu starfsári nefndi Friðrik sérstaklega klúbbþing á sl. hausti, þar sem félagar lögðu í hugmyndabanka fjölmargar tillögur um stefnuskrá og verkefni. Sagði Friðrik margt af því hafa komið til framkvæmda en viðtakandi stjórnir myndu einnig fylgja málum eftir. Stjórnin einsetti sér að fá 4-6 nýja félaga í klúbbinn. Þeir urðu fjórir, þar af tvær konur. Af einstökum viðburðum nefndi Friðrik sérstaklega haustlitaferð um Suðurland með heimsókn í sumarbústað klúbbfélagans Guðlaugs Björgvinssonar í Grímsnesinu. Þá rifjaði hann upp vígslu minnismerkis, sem klúbburinn hefur komið upp til minningar um hinn forna kirkjustað í Breiðholti. Í framhaldi af þeirri athöfn fóru klúbbfélagar ásamt fjölskyldum að Elliðavatni og í skógræktarlund klúbbsins í Heiðmörk. Í lok ræðu sinnar ítrekaði Friðrik þakkir til klúbbsins og óskaði viðtakandi forseta og hans stjórn alls hins besta.
Þessu næst setti Friðrik forsetakeðjuna um háls Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, sem þar með tók formlega við forsetaembættinu.Vilhjálmur tók til máls og þakkaði traustið sem sér hefði verið sýnt með vali til forseta. Þakkaði hann fráfarandi forseta dugnað og lipurð í öllum stjórnarstörfum. Vilhjálmur kynnti samstarfsfólk sitt í nýrri stjórn klúbbsins, sem þegar hefur haldið fjóra fundi til undirbúnings starfsárinu. Það eru þau Jónína Bjartmarz, ritari, Einar Benjamínsson, gjaldkeri, Hólmfríður Guðjónsdóttir, dagskrárstjóri, Gígja Guðjónsdóttir, stallari, Elías Ólafsson, verðandi forseti og Friðrik Alexandersson, fráfarandi forseti,
Vilhjálmur sagðist hlakka til að vinna með nýrri stjórn í þágu klúbbsins. Mikill áhugi ríkti meðal stjórnarmanna. Starfsáætlanir voru tilbúnar í apríl og sendar umdæmisstjóra mjög tímanlega enda klúbburinn sá fyrsti, sem skilaði inn gögnum. Starfsáætlanirnar væru grunnur sem tekið gæti breytingum. Samfélagsverkefni eru á döfinni, svo sem skógræktarverkefni í lundi klúbbsins í Heiðmörk og umhverfisvæn verkefni í Breiðholti. Slík viðfangsefni styrkja ímynd rótarýhreyfingarinnar.
„Við eigum að sýna góðan hug okkar til verkefna í nærsamfélaginu,“ sagði Vilhjálmur. „Til dæmis með því að veita viðurkenningar í grunnskólum í Breiðholti. Áfram verði haldið að veita viðurkenningar til nemenda í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og styrkja kór eldri borgara í Gerðubergi.“ Ungmennaþjónusta, stuðningur við erlenda skiptnema, er einnig á dagskrá. Klúbburinn verður 30 ára á þessu ári. Sagði Vilhjálmur eðlilegt að haldinn verði hátíðarfundur af því tilefni og tímabært að saga klúbbsins verði tekin saman. Margir nýir félagar hafa bæst við á síðustu árum. Nauðsynlegt að þeir þekki vel söguna og verkefnin sem klúbburinn hefur staðið fyrir.
Markmiðið er að fjölga nýjum félögum um að a.m.k. þrjá á starfsárinu. Áhersla verður lögð á ungt fólk, fyrst og fremst konur. Nettóaukning verði 3% á ári næstu þrjú árin. Starfsgreinar skipta máli í því sambandi og jafnframt vilji og geta viðkomandi til að láta gott af sér leiða í klúbbstarfinu. Allir klúbbfélagar eiga að taka þátt í félagaöflun. Kynning á klúbbstarfinu er mikilvæg til að styrkja ímyndina, auka sýnileika klúbbsins og vekja athygli á góðum verkefnum. Þá væri ánægjulegt og gagnlegt að eiga samstarf við aðra klúbba um verkefni. Þetta var rætt á fundi með Rótarýklúbbnum Reykjavík-Árbær í fyrra og verður málið tekið upp aftur við þann klúbb og ef til vill annan.
Undir lok ræðu sinnar rakti Vilhjálmur nokkur lykilatriði um markmið og starfsemi Rótarýhreyfingarinnar um heim allan til fróðleiks fyrir maka og aðra gesti á fundinum. Lokaorðin í ræðu sinni tileinkaði Vilhjálmur starfsandanum í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt:
„Öflugt starf, góður félagsandi og fróðleg erindi á fundum, heimsóknir í athyglisverð fyrirtæki og stofnanir, fræðsluferðir og samkomur með mökum, er forsenda þess að gera klúbbinn skemmtilegan og eftirsóknarverðan.“
Að svo búnu var formlegum fundi slitið og ljúffengur kvöldverður fram borinn. Eftir borðhaldið var flutt skemmtiatriði við hinar bestu undirtektir viðstaddra. Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, söng- og leikkona, og Karl Olgeirsson, tónlistamaður, fluttu tónlistardagskrá byggða á lögum úr söngleikjum.
Texti og myndir Markús Örn Antonsson