Klúbburinn fagnar nýjum félaga
Amal Tamimi, framkvæmdastjóri Jafnréttishúss, boðin velkomin á fundi 10. júní.
Friðrik Alexandersson, forseti klúbbsins, gat þess í ávarpi sínu á fundinum að félagar í Rk Reykjavík-Breiðholt væru 67 talsins eftir að Amal Tamimi gengur til liðs við klúbbinn. Þar af hafa 48 mætingarskyldu. Friðrik sagði að því miður væru ekki nema 7 konur í hópi klúbbfélaga og væri það því verðugt verkefni fyrir stjórnir klúbbsins á næstu árum að leiðrétta misvægið varðandi aðild kynjanna. Klúbbforsetinn hvatti til virkrar þátttöku í öllum störfum klúbbsins og undirstrikaði mætingaskylduna. Hann færði Amal fræðsluefni um Rótarý og gat þess að klúbbfélaginn Lúðvíg Lárusson myndi verða henni til aðstoðar við að aðlagast nýjum félagsskap á næstu vikum.
Amal Tamimi þakkaði hlýjar móttökur og gerði stutta grein fyrir búsetu sinni og störfum á Íslandi . Hún flutti til landsins frá Palestínu árið 1995, á sex börn og átta barnabörn. Fyrst í stað vann hún í fiski og við ræstingar en lauk síðar námi í félagsfræði við Háskóla Ísland. Eftir það starfaði hún hjá Alþjóðahúsi og síðar sem forstöðumaður Jafnréttishúss í Hafnarfirði. Verkefni hennar hafa fyrst og fremst verið á sviði ráðgjafar við innflytjendur og túlkaþjónustu. Amal var varaþingmaður Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili og sat tvívegis á Alþingi.
Texti og myndir Markús Örn Antonsson