Heimsókn í Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Klúbburinn kynnti sér starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Keldnaholti í heimsókn sem farin var í aðalstöðvar fyrirtækisins 11. marz.
Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðssviðs, tók á móti klúbbfélögum og sagði frá starfseminni. Fjallaði hann um helztu markmið og gerði grein fyrir mikilvægustu verkefnum hinna einstöku sviða.
Stefna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er m.a. að vera fyrsti valkostur sprotafyrirtækja sem leita stuðningsþjónustu og aðstoða við fjármögnun þeirra. Ennfremur að vera burðarás í fjölþjóðlegu samstarfi rannsókna- og þróunarverkefna sem skapa þátttökuaðilum samkeppnisforskot. Nýsköpunarmiðstöðin hvetur til nýsköpunar og eflir framgang nýrra hugmynda í íslensku atvinnulífi með virkri þátttöku í rannsóknarverkefnum og stuðningi við frumkvöðla og fyrirtæki.
Í framhaldi af kynningu Karls Friðrikssonar gafst tækifæri til að beina til hans spurningum og hefja umræður. Sérstök athygli beindist að starfsemi Impru, sem veitir frumkvöðlum og fyrirtækjum þjónustu og stuðning á fjölbreyttu sviði. Markmiðið er að auðvelda stofnun nýrra fyrirtækja og stuðla að nýsköpun í viðskipta- og vöruþróun hjá nýjum og starfandi fyrirtækjum með upplýsingamiðlun, fræðslu og faglegum stuðningi. Impra býður upp á hagnýt tæki og lausnir sem auðvelda frumkvöðlum og fyrirtækjum um allt land að vinna markvisst að viðskiptahugmyndum sínum. Impra starfar á sjö starfsstöðvum á landsbyggðinni, auk starfsstöðvar í Reykjavík. Þá hefur Impra með höndum rekstur frumkvöðlasetra Nýsköpunarmiðstöðvar. Verkefnisstjórar Impru um land allt veita árlega um 2000 handleiðsluviðtöl, þar sem frumkvöðlar, stofnendur og stjórnendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja sækja faglegan stuðning og leiðsögn við stofnun og rekstur fyrirtækja. Einnig er um 10000 styttri fyrirspurnum frá fyrirtækjum og einstaklingum svarað á hverju ári .
Nýsköpunarmiðstöðin starfrækir fjögur frumkvöðlasetur á höfuðborgarsvæðinu auk þess að veita fyrirtækjum í frumkvöðlasetrinu Toppstöðinni og setri í Húsi íslenska sjávarklasans fræðslu og stuðning. Um 80 fyrirtæki með um 200 starfsmenn eru nú staðsett á setrunum. Fyrirtækin eru afar fjölbreytt en stærsti hluti þeirra vinnur að nýsköpun á sviði tækni og hugbúnaðar og skapandi greina. Einnig fæst mjög stór hluti þeirra við heilsutengda nýsköpun.
Karl Friðriksson svaraði fjölda fyrirspurna úr sal og í fundarlok færði Friðrik Alexandersson, forseti klúbbsins, honum þakkir fyrir einstaklega góðar mótttökur og fróðlega kynningu. Texti og myndir Markús Örn Antonsson.