Fréttir
  • Frásögn Morgunblaðsins af útskrift í FB

23.12.2012

Klúbburinn veitti verðlaun

Samkvæmt langri hefð veitir Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt viðurkenningu fyrir glæsilegan árangur á útskriftarprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Við útskriftarathöfn skólans, sem fram fór í Háskólabíói  föstudaginn 21. desember sl., afhenti Friðrik Alexandersson, forseti klúbbsins, verðlaun fyrir framúrskarandi árangur. Þau hlaut Andri Friðjónsson, sjúkraliðabraut, en hann lauk  stúdentsprófi  að loknu starfsnámi .

Á baksíðu Morgunblaðsins hinn 22. desember birtist frásögn af ræðu Andra, sem hann flutti fyrir hönd útskriftarnema við athöfnina. Þar segir m.a.:

„Mig langar að gera það sem í mínu valdi stendur til að láta öðrum líða vel,“ sagði Andri Friðjónsson, fulltrúi nemenda á útskriftarhátíð Fjölbrautaskólans í Breiðholti, í ræðu sinni í Háskólabíói í gær. Hann útskrifaðist sem stúdent og sjúkraliði og er þúsundasti sjúkraliðinn sem útskrifast frá skólanum. Umönnun á hug hans allan en Andri hefur verið í starfsnámi og unnið sem sjúkraliðanemi á Landspítalanum með bóklega náminu undanfarin misseri en byrjar sem sjúkraliði eftir áramót. Hann hefur verið virkur í nemendafélagi FB og við útskriftina fékk hann verðlaun frá Rótarýklúbbnum Reykjavík –Breiðholt  fyrir góðan námsárangur og þátttöku í félagsstarfi.

Hvetur krakka til dáða

Andri var að þessu sinni eini karlmaðurinn sem útskrifaðist sem sjúkraliði en hann hvetur ungt fólk til þess að gefast ekki upp, þó að það finni sig ekki í námi, heldur reyna eitthvað annað eins og til dæmis sjúkraliðanám. „Reynslan tapast aldrei, starfið gefur svo mikið og að útskrifast úr framhaldsskóla með starfsréttindi er mjög gott,“ segir hann. „Upphaflega ætlaði ég að útskrifast af náttúrufræðibraut og fara í læknisfræði en ég fékk námsleiða og var við það að segja mig úr skóla þegar ég ákvað að ég ætti kannski bara að breyta um umhverfi og fara að læra eitthvað annað.“