Fréttir
  • Gísli B. ásamt áhugasömum bókaormum

13.11.2012

Kynning á starfssviðum fjögurra klúbbfélaga

Klúbburinn brá sér bæjarleið 12. nóvember sl. og fór suður fyrir borgarmörkin í starfsgreinatengdar heimsóknir til fjögurra klúbbfélaga.

 

Iceland Review olli straumhvörfum í landkynninguÍ Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ stendur yfir sýning á verkum félaga okkar Gísla B. Björnssonar, sem er löngu þjóðkunnur fyrir verk sín á sviði grafískrar hönnunar. Sýningin spannar feril Gísla frá því að hann kom heim frá námi í Þýzkalandi og hóf þá að starfa að útlitshönnun bóka, blaða og bæklinga, að ekki sé talað um blaðaauglýsingar og síðar sjónvarpsauglýsingar. Gísli og nokkur starfssystkini hans, sem hófu hér störf um líkt leyti, fengu fyrst í stað starfsheitið auglýsingateiknarar í samræmi við aðalverksviðið en voru síðar nefnd grafískir hönnuðir, sem var meira í samræmi við fjölbreytni starfsins.

Sýningin á verkum Gísla er skemmtilega upp sett í sýningarými Hönnunarsafnsins, þar sem Harpa Þórsdóttir, safnstjóri, tók á móti hópnum. Síðan nutu gestirnir leiðsagnar Gísla um sýninguna. Gísli útskýrir hugmyndavinnunaEins og vænta mátti bar margt forvitnilegt fyrir augu, sem varð tilefni upprifjunar skemmtilegra minninga úr íslensku þjóðlífi frá þeim tíma er verkin urðu til.  Nafn Gísla tengist m.a. útgáfu ýmissa merkra bókmenntaverka og tímaritsins Iceland Review, sem olli straumhvörfum í Íslandskynningu á sjöunda áratugnum. Merki sem flestir landsmenn þekkjaÞá teiknaði hann merki Sjónvarpsins, sem hvert mannsbarn í landinu þekkir, sem og fjölmörg önnur merki fyrir samtök og fyrirtæki. Sýningin lýsir vel þeirri vandvirkni og ögun í vinnubrögðum ásamt frjóu hugmyndaflugi, sem jafnan einkennir verk Gísla B.

 Úr Garðabænum var svo haldið suður á iðnaðarsvæðið austan Reykjanesbrautar, gegnt álverinu í Straumsvík. Þar hefur Gámaþjónustan h.f. stóra landspildu til umráða fyrir rekstur sinn á sviði endurvinnslu, moltugerðar og sorphirðu ásamt ýmissi þjónustustarfsemi sem tengist rekstrinun. Sveinn Hannesson og Benóný Ólafsson tóku á móti gestumLóðin er 9 hektarar og húsakostur um 4000 fermetrar. Þeir klúbbfélagar okkar, bræðurnir Benóný Ólafsson, forstjóri, Elías Ólafsson, stjórnarformaður, ásamt Sveini Hannessyni, framkvæmdastjóra, tóku á móti hópnum og gerðu grein fyrir starfsemi fyrirtækisins, sem hefur vaxið ört frá því að Benóný stofnaði það árið 1983. Elías Ólafsson sagði frá þróun fyrirtækisinsVelta Gámaþjónustunnar í fyrra nam um 3,5 milljörðum króna og skilaði það 135 milljón króna hagnaði. Hjá fyrirtækinu starfa um 200 manns og eru dótturfyrirtækin sjö talsins hringinn í kringum landið.

Ingþór Guðmundsson, stöðvarstjóri útskýrði verkferla í endurvinnslu pappírsÁ degi hverjum eru um 40 bílar í förum við sorphirðu og flutninga. Nemur magnið 3000 tonnum á mánuði.

Mikil áhersla hefur verið lögð á endurvinnslu á lífrænum úrgangi, pappír og timbri. Lífrænn úrgangur, sem fellur til í eldhúsum og mötuneytum, ásamt garðaúrgangi, er breytt í jarvegsbæti, moltu. Þá fer fram móttaka, flokkun, böggun og útflutningur til endurvinnslu á hvers konar pappa og pappírsafurðum. Ennfremur er tekið á móti öllum öðrum helstu flokkum úrgangs til endurvinnslu, svo sem plasti, málmum, byggingaúrgangi og raf- og rafeindatækjum. Þótti gestunum aðdáunarvert hve myndarlega hefur verið staðið að uppbyggingu þessa nútímalega og kröftuga fyrirtækis.

                                                                                                     Texti og myndir Markús Örn Antonsson