Fréttir
  • Lifandi frásögn Aðalsteins

1.10.2012

Klúbburinn heimsótti listsýninguna “Ljóðheimar”á Kjarvalsstöðum

Félagar í Breiðholtsklúbbnum og makar þeirra nutu fróðlegrar leiðsagnar klúbbfélaga síns Aðalsteins Ingólfssonar, listfræðings, er þeir heimsóttu sýninguna “Ljóðheimar – Ljóðræn abstraktlist íslenskra myndlistarmanna 1957-1970” á Kjarvalsstöðum 24. september.

 

Fjölbreytt yfirlitsssýning á verkum 30 myndlistarmannaÍ kynningu á sýningunni segir, að með henni vilji listfræðingurinn og sýningarstjórinn Aðalsteinn Ingólfsson vekja athygli á því að sérfræðingar, sem fjallað hafa um þróun íslenskrar málaralistar á fyrstu áratugum eftir síðari heimsstyrjöld, hafi fyrst og fremst beint athyglinni að strangflatalistinni svokölluðu, þar sem hreinir litir og skýr formhyggja ræður ríkjum. Hins vegar hafi formbyltingin á seinni hluta sjötta áratugarins, uppgangur frjálsrar eða ljóðrænnar abstraktlistar, sem leikur stórt hlutverk í íslenskri myndlist frá sýningu Kristjáns Davíðssonar 1957 og til loka sjöunda áratugarins, enn ekki hlotið þá umfjöllun sem hún verðskuldar. Markmið sýningarinnar er að bæta úr þeirri ávöntun.

Áhugasamir listunnendurÁ sýningunni er að finna verk eftir um 30 listamenn, verk frumherjanna Svavars Guðnasonar, Nínu Tryggvadóttur, Jóns Engilberts og Kristins Péturssonar, sem lögðu drög að frjálsri íslenskri abstraktlist með landslagsívafi, verk septembermanna á borð við Hörð Ágústsson, Valtý Pétursson, Kjartan Guðjónsson, sem sneru baki við strangflatalist og tóku upp frjálslegri myndlist, og loks ljóðræn abstraktverk listamanna af yngri kynslóð, Elíasar B. Halldórssonar, Einars Þorlákssonar, Kára Eiríkssonar, Eyjólfs Einarssonar og Ragnheiðar Ream. Ánægðir sýningargestirVerk Kristjáns Davíðssonar og Eiríks Smiths eru síðan í lykilhlutverki á sýningunni allri. Ljóðræna abstraktlistin setti einnig mark sitt á íslenska þrívíddarlist á sjötta og sjöunda áratugnum sem sjá má í verkum Gerðar Helgadóttur, Jóhanns Eyfells, Jóns og Guðmundar Benediktssona og Guðmundar Elíassonar. Verk nokkurra þessara listamanna hafa ekki fyrr verið sýnd undir þessum formerkjum, svo sem Arnars Herbertssonar, Jes Einars Þorsteinssonar, Magnúsar Tómassonar, Sigríðar Björnsdóttur og Vilhjálms Bergssonar.

Forseti klúbbsins færði Aðalsteini miklar þakkirFriðrik Alexandersson, forseti klúbbsins, færði Aðalsteini miklar þakkir gestanna fyrir frábæra leiðsögn um sýninguna. Hún stendur til 4. nóvember nk.  

Ljósm. Sveinn H. Skúlason