Fréttir
  • Glaðbeitt ferðafólk

4.10.2012

Vegaljóð í haustlitum

Hinrik Bjarnason segir í bundnu máli frá haustferð klúbbsins austur fyrir Fjall  29. september 2012.

Ferðin hófst við Grand Hótel á fögrum haustdegi í frábæru skyggni en litlu sólfari. Leiðin lá austur fyrir Fjall og var frá upphafi til enda mörkuð afbragðsleiðsögn Jóns R. Hjálmarssonar. Eins og í góðum spennusögum leið ekki á löngu uns fyrsta líkið kom við sögu. Það var Kári sjálfur sem stofnaði til þess harmleiks í gjótu í Svínahrauni; ummerkin fundust fyrst tíu árum síðar.

Á fögrum degi, fjarri raun,
ferðarinnar njótum.
Nú er sól um Svínahraun,
en sorgin býr í gjótum.

Heimsókn í HellisheiðarvirkjunÍ Hellisheiðarvirkjun tók Helgi Pétursson á móti okkur og leiddi okkur í næstum allan sannleika um mikilleika orkuversins og undirstöður þess. Klúbburinn kom þarna í heimsókn í haustlitaferð 2006 og þá barst mjög í tal óljós samningagerð við ónefnda valdaaðila í vandfundnum héruðum. Þá var kveðið:

R-listinn og Alfreð með
ágætan samning gerðu:
Á heiðinni þau glöddu geð
greifans í neðanverðu.

Nú var þessi staða öll skoðuð af velvilja og forvitni án þess þó að öll kurl kæmu til grafar.

Ennþá kætist greifans geð,
gas frá iðrum stígur.
Brennisteinsvetni braskar með.
- Um Bláfjöllin mengun smýgur.

Lærðir menn sín leyndu gögn
létu í hendur seggjum:
Þeir rækta hérna rafurmögn
úr rotnuðum hænueggjum.

Í áningarstaðÁrið 2006 var gerð nokkur úttekt þegar austar dró um stöðu orkubirgja þar.

Hekla virðist býsna brött,
beygur vorra feðra.
Hún geymir milljón megavött
hjá meistara í neðra.

 Í þeirri ferð var einnig mjög til umræðu fjárbúskapur og máttur sauðkindarinnar og einkum þekkt sérstaða hennar í meltingarmálum. Þeirri umræðu tengdist svo önnur um umferð gæsa og það sjónræna yndi, sem vera þeirra á túnum skilur eftir;  þá kom líka Sveinn Runólfsson, hans umhverfi og lífsverk, mjög við sögu.

Kindur jarma, kind á beit,
kindin geðjast öllum.
Þetta er eins og Þorsteinn veit.
- Þetta er á Rangárvöllum.

Fararstjórar. Jón R. Hjálmarsson, Guðmundur Kristinn Ingvarsson og Hinrik BjarnasonKindin beit og kindin skeit,
kátur lyfti ég brúnum,
því ekkert fegra á fold ég leit
en fuglaskít á túnum.

Af hálendinu fjúka fjöll
og firðum valda meini.
Þau rjúka yfir Rangárvöll.
Þá reynir á hjá Sveini.

En aftur til okkar tíma því við erum komin í Grímsnesið og þar er margt breytt í mannlífi og umhverfi frá fyrri tíð, en náttúran skartar sínu fegursta í tæru skyggni haustdaganna. Allt þetta tengir leiðsögumaðurinn haganlega inn í ferð okkar af snilld sinni.

Mörg er leiðin minnisverð
og margt að sjá á Fróni.
Lánist mér að fara í ferð
fer ég helst með Jóni.

Um tíma hafði verið áætlað að stansa hjá Kerinu, en þá var minnt á eigendaskipti á þessari náttúruperlu sveitarinnar. Það minnti höfund vegaljóða á fyrri tíð er Grímsnesingar gengu í verið niður á ströndina í skiprúm til afa hans, og hvort finna mætti samanburð í nútímanum.

Úr Grímsnesinu gengu menn
glaðbeittir í verið
og þar sjást menn í útgerð enn:
Óskar rær á Kerið.

Haustlitir austanfjallsSkógar austursveita stóðu enn laufgaðir og virtust njóta hverrar stundar er stormlausir dagar tryggðu trjám þeirra og lituðu laufi. Ferðalangar nutu þess arna til fullnustu, og þá ekki síður hins að í ferðinni var gestrisni í hávegum höfð hvað snerti kurteislegt aðgengi að ferðanesti, föstu og fljótandi. Hæst reis samstilling hinnar umhverfislegu og gastrónómísku dýrðar í eftirminnilegri heimsókn í sumarbústaðinn til Guðlaugs Björgvinssonar.Í sumarbústaðnum hjá Guðlaugi Björgvinssyni

Litir haustsins logum slá
og ljóma í Grímsnesinu.
Guðlaugur býður gestum þá
gnægtir af matborðinu.

Síðan var haldið upp með Sogi, yfir í Grafninginn og umhverfis Þingvallavatn. Höfundur vegaljóða hættir sér ekki í kveðskap um það svæði en vísar í hógværð til annarra þjóðskálda. En á leiðinni að Ljósafossi, eftir lýsandi viðveru í Grímsnesinu, varð leiðsögumanni tíðrætt um Tómas og Ólaf Jóhann.

Út og þaðan, upp við Sog,
andans lifðu glæður.
Ólu með sér andans log
ungir skáldabræður.

Svo var farinn nýr vegur um gamlar slóðir, Lyngdalsheiðina, til Laugarvatns og gerð fræðandi og seðjandi viðstaða við baðhúsið Fontana.Baðhúsið Fontana á Laugarvatni Margur rifjaði í kyrrþey upp fyrri heimsóknir og dvalir í því umhverfi.

Á Laugarvatni lífið er
laugað sælustundum
er Rótarýklúbbur framhjá fer
og fundar í skógarlundum.

Loks var í ferðarlok ekið á Selfoss yfir gamlar brýr og nýjar yfir vatnsföll stór og smá og árnar tengdu gamalgrónar byggðir  með vinalegum nið. Ferðafélagarnir 2006 nutu  kvöldverðar í mjólkurbúinu á Fossi eftir undirbúning og fyrirhyggju Guðlaugs gestgjafa okkar í Grímsnesinu. Þá var kveðið:

Í mjólkurbúið mætt ég hef,
matinn etið glaður.
Heim ég geng og geiglaus sef,
gamall Flóamaður.

Kvöldverður á RiversideNú beið kvöldverður í útsýnismatsal Hótel Selfoss, þar sem heitir Restaurant Riverside. Eftir þá sældarmáltíð lá svo leiðin aftur suður þótt ekið væri í norður og vestur, á bílastæðin við Grand Hótel. Þá var mál að botna dýrlegan dag og kveða:

Á Riverside ég rogginn hef
rétti etið glaður.
Heim ég geng og geiglaus sef,
gamall Flóamaður.

 Hinrik Bjarnason / Ljósm. Friðrik Alexandersson