Starfslokafundur á sólríku kvöldi við Fossvoginn
Lokafundur starfsársins og stjórnarskipti í klúbbnum fóru fram á veitingastaðnum Nauthóli 25. júní. Fundurinn var vel sóttur og nutu klúbbfélagar og makar ánægjulegrar kvöldstundar á fögru sumarkvöldi við Fossvoginn og Nauthólsvíkina.
Ingvar Pálsson, fráfarandi forseti, setti fund og skipaði Svein Hannesson veislustjóra. Var létt yfir þeirri stjórn eins og vænta mátti af Sveini, sem kann að skemmta fólki með hugrenningum sínum og styttri athugasemdum. Snæddur var kvöldverður en hefðbundin ræðuhöld fóru fram á milli rétta.
Í greinargóðri starfslokaskýrslu Ingvars fráfarandi forseta kom fram, að starfsemi klúbbsins undanfarið rórarýár hefur verið áberandi fjölbreytt og margir athyglisverðir atburðir á dagskrá auk annarra, sem hefð er komin á. Ingvar gat þess að eitt brýnasta verkefni fráfarandi stjórnar hefði verið fjölgun klúbbfélaga. Undirbúningurinn tók öllu lengri tíma en gert var ráð fyrir í fyrstu en uppskeran var góð: Í janúar voru teknir inn þrír nýir félagar og aðrir þrír í mars, samtals tvær konur og fjórir karlar. Stjórnin einsetti sér að auka framlag klúbbsins í Rótarýsjóðinn um fjórðung, úr $30 á félaga í $40. Þrátt fyrir það ákvað stjórnin að halda félagsgjöldum óbreyttum. Í staðinn hafa fallið niður niðurgreiðslur á ferðum og skemmtunum eins og áður tíðkaðust.
“Farin var haustferð til Reykjanesbæjar sem þótti takast hið besta. Vorferð var farin að Sólheimum í Grímsnesi og var hún ekki síður skemmtileg og fróðleg”. sagði Ingvar í ræðu sinni. “Þátttaka á fundum hefur verið viðunandi, rúmlega 64% mæting. Við fengum 22 fyrirlesara til að ræða um hin margvísustu málefni auk þess sem fjórir félagar héldu erindi um hugðarefni sín. Þrjú starfsgreinaerindi voru haldin og 18 félagar héldu þriggja mínútna ræður. Ég hélt hefðinni frá Aðalsteini, fyrrverandi forseta, að óska eftir að félagar heimsæktu aðra Rótarýklúbba og segðu frá starfsemi þeirra á þrem mínútum. Á þann máta voru 15 klúbbar heimsóttir”.
Tvær fyrirtækjaheimsóknir voru í boði á starfsárinu: Ferð í Þjóðmenningarhúsið og önnur til Íslandspósts. Klúbbféagar buðu mökum sínum í Þjóðleikhúsið og sáu Vesalingana. Klúbburinn átti samskipti við tvo Rótarýklúbba á stór Reykjavíkursvæðinu: Mosfellssveitarklúbburinn kom á fund Breiðholtsklúbbsins en hann fór aftur á móti til fundar við Árbæjarklúbbinn. Báðir fundirnir tókust vel. Árbæjarklúbburinn óskaði eftir þátttöku Breiðholtsklúbbsins í samvinnu við Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og þá í verkefnum tengdum dalnum. Var vel tekið í þá samvinnu.
Á vegum Rótarý hefur dvalið hér skiptinemi, stúlka frá Brasilíu. Breiðholtsklúbburinn hefur greitt fyrir hana skólagjöld og námsbækur og séð henni fyrir vasapeningum. Henni hefur verið boðið á ýmsa atburði með klúbbfélögum.
“Það hefur verið mér mikil ánægja að fá tækifæri til að stýra klúbbstarfinu að undanförnu. Samstarfið við félaga mína í stjórninni hefur verið með ágætum og þakka ég þeim fyrir það. Eins hafa kynni mín af klúbbfélögum eflst mér til mikillar ánægju. Ég stíg nú til hlés og fel nýrri áhöfn að taka við keflinu. Um leið og ég set forsetakeðjuna um háls Friðríks Alexanderssonar óska ég honum og stjórn hans velgengni á komandi starfsári.”, sagði Ingvar Pálsson í lok ræðu sinnar.
Friðrik Alexandersson, forseti klúbbsins, kynnti samstarfsmenn sína í nýrri stjórn klúbbsins og fór yfir nokkur áhersluatriði, sem stjórnin mun fjalla nánar um og gera klúbbfélögum grein fyrir á síðari stigum.
Starfslokafundinum lauk síðan með því að Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, óperusöngkona, flutti nokkur sönglög og atriði úr óperunni Carmen við undirleik Hrannar Þráinsdóttur, píanóleikara. Hlutu listakonurnar afar góðar viðtökur áður en fundargestir gengu út í sólarlagið.