Ferð að Sólheimum í Grímsnesi
Fimmtán manna hópur klúbbfélaga og maka hélt austur að Sólheimum í Grímsnesi laugardaginn 19. maí að kynna sér starfsemina þar. Einnig var með í för brasilíski skiptineminn Paulinha, sem dvelst hér á landi á vegum klúbbsins.
Pétur Sveinbjarnarson, stjórnarformaður Sólheima, tók á móti gestunum og bauð þá velkomna. Eftir að við hafa þegið súpu og brauð í kaffistofunni Grænu könnunni, fór hópurinn í fylgd Péturs í Sesseljuhús, sem er glæsilegt umhverfis- og fræðslusetur og sýningarhús um sjálfbærar byggingar. Þar gerði Pétur grein fyrir sögu staðarins.
Sólheimar voru stofnaðir af Sesselju H. Sigmundsdóttur (1902-1974) árið 1930 og byggja m.a. að nokkru á hugmyndafræði Rudolf Steiner (1861-1925). Sólheimar voru fyrsti staðurinn á Norðurlöndum til að stunda lífeflda ræktun (bio-dynamics) og jafnframt fyrsti íslenski aðilinn að alþjóðasamtökunum Global Eco-village Network. Sólheimar eru sjálfbært samfélag. Þar búa og starfa saman um það bil 100 einstaklingar, þar af 40-50 fatlaðir, í skapandi, alþjóðlegu umhverfi með áherslu á umhverfismál, listræna vinnu og lífræna ræktun. Rakti Pétur sögu staðarins og þess mannúðarstarfs sem þar hefur farið fram.
Síðan lá leiðin að kirkju staðarins sem hefur Hestfjall í baksýn og hefur frumdrög sín frá fjallinu. Eftir að hafa hlýtt á byggingasögu kirkjunnar og helstu muna hennar getið sungu gestir sálm undir handleiðslu eins klúbbfélagans, séra Valgeirs Ástráðssonar. Klúbbfélagarnir séra Valgeir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson eiga sæti í í fulltrúaráði Sólheima.
Næst var farið í Vigdísarhús sem reist var að hluta fyrir afgang af kosningasjóði Vigísar Finnbogadóttur vegna forsetakosninganna 1980. Þar er mötuneyti staðarins, bakarí og ýmsar vinnustofur. Því næst var gengið um svæðið og ýmsar byggingar skoðaðar, hús sem reist hafa verið fyrir fjáraflafé einstaklinga og heimilismanna eins og t.d. leikhúsið sem reist var í kjölfar söfnunarátaks Reynis Péturs þegar hann gekk í kringum landið. Skoðaðar voru vinnustofur, þar sem handverkið er í öndvegi. Íbúar staðarins stunda vefnað, keramikgerð, smíðar og gerð kerta og annars skrauts úr vaxi. Þeir vinna einnig í gróðurhúsum staðarins.
Mikil og glæsileg uppbygging hefur átt sér stað á Sólheimum undanfarin ár og einstaklega vel búið að heimilisfólki þar. Í lokin var skoðaður listaverkagarður Sólheima sem geymir myndverk tólf höfunda. Pétri Sveinbjarnarsyni var þökkuð fróðleg og skemmtileg leiðsögn og staðnum óskað velfarnaðar í framtíðinni.
Smellið hér: Sjá myndband úr Sólheimaferðinni