Félögum í klúbbnum fjölgar markvisst
Þrír nýir félagar gengu í Rótarýklúbbinn Reykjavík-Breiðholt á fundi hans mánudaginn 26. mars sl.
Nýju félagarnir eru Gígja Sólveig Guðjónsdóttir, bankamaður, Ragnar Árnason, prófessor og Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, aðstoðarskólastjóri. Þau hafa að undanförnu sótt fundi klúbbsins og kynnt sér starfsemi hans.
Forseti klúbbsins Ingvar Pálsson kvað það mjög ánægjulegt að fá tækifæri til að bjóða þau velkomin. Eitt af markmiðum núverandi stjórnar hefur verið að fjölga félögum. Hann sagði, að eftir þennan fund hefði klúbburinn tekið inn alls sex nýja félaga það sem af er starfsárinu, þar af tvær konur sem væri sérstakt fagnaðarefni. Þá bauð hann sérstaklega velkomin á fundinn þau Tryggva Pálsson, umdæmisstjóra og eiginkonu hans Rannveigu Gunnarsdóttur, sem einnig er rótarýfélagi.
Í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt eru 66 félagar eftir inngöngu hinna nýju félaga, þar af 47 með mætingaskyldu. Konur eru enn í miklum minnihluta, aðeins fimm svo þar er verk að vinna.
Ingvar Pálsson rakti síðan hlutverk Rótarýhreyfingarinnar og verkefni á heimsvísu og öflugt starf hennar hér á landi. Í ávarpsorðum sínum til nýju klúbbfélaganna sagði hann ennfremur:
“Ykkur hefur verið gefinn kostur á að gerast félagar í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt vegna þeirra kynna og þess orðspors sem við félagar klúbbsins höfum haft af ykkur og starfsháttum ykkar. Við væntum þess að þið munið hafa bæði gagn og gleði af félagsskap okkar og að ykkur verði ljúft að starfa með Rótarý-félögum. Hvar í heiminum sem þið eruð, eruð þið meðal vina þegar þið sækið Rótarýfund.”
Forseti klúbbsins lauk máli sínu með því að bjóða nýju félagana enn hjartanlega velkomna. Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir verður fulltrúi starfsgreinarinnar „Skólastjórnun“. Nýir félagar fá leiðsögumenn úr röðum eldri félaga fyrst um sinn. Fóstri Sigurlaugar Hrundar verður Ingvar Birgir Friðleifsson. Gígja Sólveig Guðjónsdóttir verður fulltrúi starfsgreinarinnar „Bankastarfsemi“. Fóstri hennar verður Hinrik Bjarnason. Ragnar Árnason verður fulltrúi starfsgreinarinnar „Háskólakennsla“. Fóstri hans verður Bergþór Konráðsson.
Tryggvi Pálsson, umdæmisstjóri, ávarpaði fundinn og bauð hina nýju félaga velkomna til starfa innan vébanda Rótarý á Íslandi, umdæmi 1360. Hann sagði gleðilegt að Rótarý væri ekki aðeins í sókn hér á landi heldur um víða veröld. Athyglisvert væri að sjá virkni hreyfingarinnar eflast á svæðum, þar sem hún hefði ekki starfað til skamms tíma eins og í Rússlandi og Kína.
Tryggvi sagði að félagar í Rótarý á Íslandi væru orðnir 1197 með þeim sem gengu nú í Breiðholtsklúbbinn. Því vantaði aðeins þrjá upp á að skilyrði Rotary International um 1200 félaga til að standa framvegis undir sjálfstæðu umdæmi væri náð. Þá skýrði umdæmisstjóri frá því að síðar á árinu væri að vænta stofnunar nýs klúbbs, sem höfða muni sérstaklega til félaga á aldrinum 30-40 ára. Gert er ráð fyrir að stofnfélagar hans verði allt að 40.