Sameiginlegur fundur með Rótarýklúbbi Mosfellssveitar
Rótarýklúbbur Mosfellssveitar heimsótti Breiðholtsklúbbinn á fundi á Grand Hotel Reykjavík 13. febrúar. Þar nutu viðstaddir frásagnar Halldórs Bragasonar, tónlistarmanns, um sögu blues-tónlistar.
Ingvar Pálsson, forseti Breiðholtsklúbbsins setti fund og bauð gestina velkomna en Knútur Óskarsson, klúbbforseti Mosfellssveitarklúbbsins, setti einnig fund í sínum klúbbi og flutti þakkir fyrir þetta góða heimboð. Skiptust forsetarnir á fánum klúbbanna.
Formleg fundardagskrá var stutt og hnitmiðuð en síðan tók við skemmti- og fræðsludagskrá, sem Þorsteinn Gunnarsson, félagi í Breiðholtsklúbbnum kynnti og stjórnaði. Bauð hann velkominn tónlistarmanninn Halldór Bragason úr “Vinum Dóra”.
Halldór var kominn til að segja frá upphafi og þróun blues-tónlistarinnar. Reyndar varð það samstarfsverkefni þeirra Þorsteins og Halldórs, þar sem Þorsteinn var í hlutverki spyrilsins eins og í góðum útvarpsþætti, en Halldór sagði frá og flutti tóndæmi á gítarinn sinn til glöggvunar.
Tókst dagskrá þeirra félaganna með miklum ágætum og urðu viðstaddir margs vísari um þróun þessa vinsæla tónlistarforms og klöppuðu Halldóri lof í lófa fyrir blues-sönginn og gítarleikinn. (Ljósm. Markús Örn Antonsson)