Verðlaun veitt fyrir lofsverða ástundun í námi
Við útskrift Fjölbrautaskólans í Breiðholti þann 20. desember 2011 veitti Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt námsverðlaun í 40. skiptið á 20 árum.
Til verðlaunanna var stofnað í minningu Jóns Stefáns Rafnssonar, tannlæknis, eins af stofnfélögum klúbbsins, en Jón Stefán féll frá langt um aldur fram.
Klúbburinn óskaði þess að verðlaunin yrðu veitt þeim nemanda sem skólinn teldi hafa sýnt lofsverða ástundun og framfarir í námi og auk þess verið virkur í félagslífi innan skólans.
Ákveðið var að Linda Rós Eðvarðsdóttir hlyti verðlaunin að þessu sinni. Linda Rós starfaði sem leiðbeinandi við skólann þar sem hún aðstoðaði nemendur á innflytjendabraut, bæði námslega og félagslega. Hún stóð sig frábærlega í því hlutverki og sýndi að henni er treystandi fyrir erfiðum verkefnum. Jafnframt sýndi Linda Rós lofsverða ástundun í námi sínu.
Forseti klúbbsins, Ingvar Pálsson, óskaði Lindu Rós til hamingju með árangurinn um leið og hann afhenti henni verðlaunin.