Fréttir
  • Forseti klúbbsins býður nýja félaga velkomna.

24.1.2012

Nýir félagar í klúbbnum

Þremur nýjum félögum fagnað er þeir komu formlega til virkra starfa í klúbbnum á fundi mánudaginn 23. janúar.

 

Hinir nýju félagar eru: Ari Jónas Jónasson, efnaverkfræðingur í álveri Alcan í Straumsvík, Einar Benjamínsson, framkvæmdastjóri Baader-fiskvinnsluvéla á Íslandi og Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju hf.

 Ingvar Pálsson, klúbbforseti, flutti ávarp við þetta tækifæri en nýju félagarnir gerðu síðan grein fyrir uppruna sínum, fjölskyldum, námi og starfsferli auk áhugamála. Í ávarpi sínu sagði Ingvar Pálsson m.a.:

 “Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að bjóða ykkur velkomna í klúbbinn okkar. Eitt af markmiðum núverandi stjórnar er að fjölga félögum. Í kvöld fáum við tækifæri til þess. Innan tíðar tökum við næsta skref og bjóðum konur velkomnar í klúbbinn.

Nýir félagar ásamt forseta klúbbsins. Ari Jónas Jónasson, Ingvar Pálsson, Einar Benjamínsson og Sigurbjörn Gunnarsson.Eðlileg spurning á þessum tímamótum er sú, hvað Rótarýhreyfingin stendur fyrir. Hún er alþjóðafélagsskapur fólks úr hinum fjölbreyttu greinum þjóðlífsins með það markmið að efla og styrkja kynnin,  fræðast um margvísleg málefni og veita þjónustu.  Alþjóðahreyfingin starfar í 211 þjóðlandi  í 34.000 klúbbum með um 1,2 milljónir félaga. Á Íslandi eru 30 klúbbar með um 1300 félaga í einu umdæmi. Því stjórnar umdæmisstjóri. Félagarnir hittast á vikulegum fundum allt árið nema frí er gefið í 4 vikur um mitt sumarið. Í upphafi starfsárs sem hefst í júlí er gerð dagskrá fyrir starfsárið.  Klúbbarnir greiða framlag til alþjóðahreyfingarinnar, íslenska umdæmisins og til alþjóða Rótarýsjóðsins  sem  er menningar- og mannúðarsjóður. Umfangsmesta verkefni Rótarýsjóðsins undanfarin ár hefur verið baráttan við að útrýma lömunarveiki  í heiminum og nú er það markmið að nást.

Í klúbbnum okkar eru 60 félagar, þar af 42 með mætingaskyldu.  Á eftir verðum við orðin 45. Ætlast er til að félagar mæti að lágmarki á 50% funda og atburða á vegum klúbbsins.  Þegar félagar hafa náð 85 árum í samanlögðum aldri og klúbbaldri  er þeim frjálst, með samþykki stjórnar, að mæta að eigin ósk.  Menn geta náð sér í mætingu á fundum hjá öðrum  rótarýklúbbum.  Þið eigið eftir að fræðast um margt fleira viðkomandi  Rótarý á komandi vikum og í því skyni ætla ég að tilnefna hverjum og einum ykkar “fóstra” eða tilsjónarmann sem hefur það hlutverk á fyrstu mánuðum ykkar í klúbbnum að hvetja ykkur til þátttöku, taka á móti ykkur, kynna ykkur fyrir félögum og segja ykkur frá Rótarý og félagsstarfinu.

Í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt eru nú 63 félagar, þar af 45 með mætingaskyldu.Ég ætla nú að afhenda ykkur möppu með ýmsum upplýsingum:  Bæklinginn „Hvað er Rótarý“, fundaskrá starfsársins, nefndaskipan klúbbsins, grundvallar- og sérlög klúbbsins, bæklinginn „Allt fyrir æskuna“, fjórprófið okkar, tímaritið Rotary Norden og af rótarývefnum er vakin athygli á síðunni „Markmið Rótarý“ og vefsíðu klúbbsins okkar. Félagatalið eigið þið  að hafa nú þegar undir höndum. Þegar ég nú næli merki Rótarýs í barm ykkar er það til merkis um fullgilda aðild ykkar að Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt.”