Sýningar skoðaðar í Þjóðmenningarhúsinu
Þjóðmenningarhúsið var heimsótt og hinar athyglisverðu sýningar þess skoðaðar 7. nóvember að loknum stuttum formlegum klúbbfundi og kvöldverði í veitingastofu hússins.
Klúbbfélagi í Rkl. Breiðholts, Markús Örn Antonsson, forstöðumaður Þjóðmenningarhússins, rakti sögu þess og kynnti starfsemina um þessar mundir. Húsið var tekið í notkun árið 1909 og er glæsilegt minnismerki um fyrstu ár heimastjórnar á Íslandi. Um áratugaskeið var þar aðsetur Landsbókasafnsins, Þjóðskjalsafnsins, Náttúrugripasafnsins og Þjóðminjasafnsins. Eftir að öll þessi söfn fluttu í ný húsakynni var ákveðið og húsið skyldi notað fyrir sýningar og samkomur er tengjast menningararfi Íslendinga.
Nú eru í húsinu þrjár meginsýningar; Handritasýningin, sýning helguð minningu Jóns Sigurðssonar, forseta, og listsýningin Þúsund ár, sem er fyrsti áfangi nýrrar grunnsýningar um þróun íslenskrar myndlistar. Gestirnir notuðu tækifærið og skoðuðu sýningarnar og einnig hinar veglegu fundarstofur í húsinu. Þær eru leigðar út til fundahalda fyrir stofnanir og fyrirtæki og veitingamaður hússins sér um að bera fram málsverð eða kaffiveitingar eftir því sem óskað er.
Í aðalsal hússins, hinum gamla lestrarsal Landsbókasafnsins, fara fram dagskrárviðburðir af ýmsum toga; ráðstefnur, fyrirlestrar, bókakynningar og tónleikahald. Um 35.000 gestir hafa lagt leið sína í Þjóðmenningarhúsið árlega hin síðustu ár.