Fréttir
  • Frá myndlistarsýningunni Dúkka í Duushúsum

5.10.2011

Velheppnuð menningarferð suður með sjó

Haustferð klúbbsins var farin suður með sjó laugardaginn 1.október. Lítið var um hauslitadýrð á trjágróðri á þeim slóðum, því að trén eru fá sem engin en þeim mun meiri gróska í þróunarstarfi og menningarlífi í Reykjanesbæ.

 

Á leiðinni suður eftir sagði Inga G. Guðmannsdóttir, eiginkona klúbbfélaga okkar Elísar R. Helgasonar, frá lífinu á sveitabýlunum suður við Straumsvík, þar sem hún kom oft í heimsókn barn að aldri.

Það vakti með mörgum góðar endurminningar að aka um gamla flugvallarhliðið, sem farið var um á leið í millilandaflug frá gömlu flugstöðinni forðum. Nú er allt galopið enda byggðin á Keflavíkurflugvelli orðin um 2000 manna hverfi í Reykjanesbæ, sem kallast Ásbrú. Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri KeilisHjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, fór með hópnum um fræðslusetur félagsins og gerði grein fyrir margháttaðri starfsemi þess og framtíðaráformum. Fjórir mismunandi skólar starfa á vegum menntafyrirtækisins Keilis: Háskólabrú, fyrir þá sem stefna að stúdentsprófi, Heilsuskóli, Orku- og tækniskóli og Flugakademía.

Af flugvellinum var haldið í Víkingaheima, glæsilega byggingu við ströndina í Njarðvík þar sem víkingaskipið Íslendingur er til sýnis. Sigling Íslendings seglum þöndum vestur um haf árið 2000 undir stjórn skipasmiðsins Gunnars Marels Eggertssonar vakti sem kunnugt er  mikla athygli. Í VíkingaheimumSkemmtilega hönnuð fræðslusýning í Víkingaheimum varpar ljósi á  landafundi norrænna manna í Vesturheimi og þar er áformað að efla þjónustu við ferðafólk, sem á leið um Keflavíkurflugvöll.

Skammt undan eru aðalstöðvar Kaffitárs. Það fyrirtæki hefur stuðlað að breyttri og bættri kaffimenningu á suðvesturhorni landsins, þar sem reknar eru 8 kaffistofur undir merki fyrirtækisins. Þær Guðbjörg Ásbjörnsdóttir og Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir tóku á móti hópnum og gerðu grein fyrir innkaupastefnu Kaffitárs, sem verslar mikið beint við kaffibændur í rómönsku Ameríku og styður jafnframt samfélagsleg verkefni á nokkrum svæðum. Athyglisvert var að heyra um val og blöndun ólíkra bauna og brennsluaðferðir til að tryggja breytilegt bragð og styrkleika kaffisins. Kaffismökkun hjá Kaffitári í NjarðvíkVinsælustu tegundirnar um þessar mundir eru Morgundögg og Kvöldroði. Í lok heimsóknar voru bornar fram þrjár mismunandi kaffitegundir svo að gestirnir fengju tækifæri til að smakka og greiða atkvæði um  bragð og gæði.

Þegar ekið var um Njarðvík sagði stallari klúbbsins Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson frá lífi afa síns og ömmu í Tjarnarkoti og fleiri ættmenna þar í kring. Var Vilhjálmur tíður gestur þar sem barn.

Í sýningarsölum Duus-húsa kennir margra grasa. Þar getur m.a. að líta geysimerkilegt safn af skipslíkönum, á annað hundrað talsins, sem Grímur Karlsson, fyrrum skipstjóri, hefur smíðað. Margt sögufrægt fleyið ber fyrir augu, eins og víðkunn varðskip og fræg aflaskip frá ýmsum tímum, -síldarbáta, línuveiðara og togara. Í bátasafni Gríms KarlssonarMerkilega atvinnusögu má lesa út úr þessari einstöku sýningu Gríms. Önnur fastasýning á staðnum tengist sögu Keflavíkurflugvallar og dvöl bandaríska varnarliðsins þar. Brugðið er upp munum, myndum og prentuðum gögnum, sem lýsa hinum sérstöku aðstæðum er ríktu á Miðnesheiðinni og deilum og pólitískum átökum, sem jafnan stóðu um dvöl herliðsins þar í 60 ár. Í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus-húsum stóð einnig listsýningin “Dúkka”, með nýstárlegum verkum Valgerðar Guðlaugsdóttur.

Undir lok heimsóknarinnar til Keflavíkur var höfð viðdvöl í Geimsteini, hljóðupptökuverinu sem Rúnar heitinn Júlíusson, tónlistarmaður átti og er enn starfrækt. Þar hefur verið komið upp skemmtilegri minjasýningu helgaðri Rúnari og hljómsveitunum frá Keflavík, sem hann var í fyrirsvari fyrir ásamt Gunnari Þórðarsyni; svo sem Hljómum, Trúbroti og Ðe lónli blú bojs. Baldur sonur Rúnars JúlíussonarBaldur sonur Rúnars tók á móti hópnum og sagði frá lífi föður síns og dægurtónlistinni sem dafnaði svo blómlega í Keflavík.

Heimsókninni þar syðra lauk með léttum kvöldverði í veitingahúsinu Duus og var það mál manna að þessi dagsferð hefði verið einstaklega fróðleg og tekist með miklum ágætum þrátt fyrir sunnan rok og rigningu. Vigfúsi Ingvarssyni voru færðar sérstakar þakkir fyrir vel skipulagða dagskrá.

Sjá myndskeið úr ferðinni

 

                                                                            Markús Örn Antonsson