Skýrsla stjórnar Rótarýklúbbs Reykjavíkur starfsárið 2013-2014
Flutt af forseta Benedikt Jóhannessyni, 2. júlí 2014
Á mynd stjórn RR starfsárið 2013-2014: Sveinn Agnarsson stallari, Kristjana Kristjánsdóttir ritari, Benedikt Jóhannesson forseti, Sigurður Stefánsson gjaldkeri og Jóhann Sigurjónsson viðtakandi forseti.
Skýrsla stjórnar Rótarýklúbbs Reykjavíkur starfsárið 2013-2014
Haldnir voru 47 reglulegir fundir og auk þess ýmsir viðburðir eins og rakið verður hér á eftir. Fundir voru haldnir á Hótel Sögu í hádegi á miðvikudögum eins og fjölmörg undanfarin ár. Framan af voru fundir haldnir í Sunnusal en síðustu vikurnar í Kötlu.
Í stjórn klúbbsins á starfsárinu voru:
Benedikt Jóhannesson forseti,
Jóhann Sigurjónsson viðtakandi forseti,
Kristjana M. Kristjánsdóttir ritari,
Sigurður B. Stefánsson gjaldkeri
Sveinn Agnarsson stallari.
Stjórnin hélt 6 stjórnarfundi á árinu. Stjórnarfundir voru oftast haldnir í Sunnusal fyrir eða eftir klúbbfundi, auk þess voru mörg málefni afgreidd á fundum og með tölvupóstsamskiptum stjórnarmanna.
Í upphafi starfsársins voru félagar 119 og sex heiðursfélagar. Í lok starfsársins voru félagar einnig 119 og sex heiðursfélagar.
Fjórir nýir félagar voru teknir inn í klúbbinn á starfsárinu:
Ólafur Indriði Stefánsson 18. september 2013 fyrir starfsgreinina íþróttir.
Finnur Oddsson 19. febrúar 2014 fyrir starfsgreinina upplýsingatækni.
Hrund Rudolfsdóttir 26. mars 2014 fyrir starfsgreinina lyfjadreifingu.
Unnur Anna Valdimarsdóttir 4. júní 2014 fyrir starfsgreinina faraldsfræði.
Auk þess var einn félagi, Birna Einarsdóttir, samþykktur inn í klúbbinn í júní, en ekki gafst færi á því að taka hann inn vegna anna.
Þær Sigríður Snævarr og Svava Bjarnadóttir voru stjórn til ráðgjafar um inntöku nýrra félaga. Stjórnin hafði í upphafi árs sett sér það markmið að ná inn sex nýjum félögum, þar af a.m.k. þremur konum. Afar mikilvægt er að brýna fyrir kandídötum að þeir einsetji sér að mæta vel, því ella er til lítils unnið að fá þá í klúbbinn.
Þess ber að geta að stjórn 2012-2013 setti þá vinnureglu að félagsgjöld skyldu innheimt tveimur mánuðum fyrr en áður og hún reyndist vel. Auk þess var samþykkt að þeir félagar sem ekki greiddu félagsgjöld að fenginni áminningu þar um teldust hafa sagt sig úr klúbbnum. Áður höfðu vangoldin félagsgjöld getað safnast upp, en með þessu fyrirkomulagi er tryggt að einungis þeir sem eru í skilum séu félagar.
Einn félagi, Jónas Kristjánsson, lést 7. júní s.l.
Þrír félagar hættu í klúbbnum á starfsárinu: Illugi Gunnarsson, Óttarr Möller og Tómas Á. Jónasson.
Mesta fundarsókn á starfsárinu var á 24. fundi 15. janúar s.l. en þá mættu 48 félagar eða 63% .
Minnsta fundarsókn félaga var á niðjafundum klúbbsins. Á 22. fundi 27. desember mættu 12 félagar eða 15.6%Á 43. fundi 28. maí en þá mættu 16 félagar eða 20%.
Benedikt Jóhannesson og Þórir Jónsson náðu 100% fundarsókn allt starfsárið. Fyrri hluta starfsársins náðu 3 félagar 100% fundarsókn, þau Benedikt Jóhannesson, Kristjana M. Kristjánsdóttir og Þórir Jónsson.
Fjöldi gesta á fundum á árinu var 197. Rótarýgestir voru 48. Meðalfjöldi gesta á fundi var því fjórir.
Ferðir á starfsárinu
· Berjaferð 30. ágúst. Ríflega 40 félagar tóku þátt í berjaferðinni sem farin var 30. ágúst. Leiðin lá fyrst í sumarkofa stallara við Helluvatn og þaðan austur að Úlfljótsvatni þar sem séra Egill Hallgrímsson, sóknarprestur, tók á móti hópnum og sýndi kirkjuna. Næsti viðkomustaður var Húsið á Eyrarbakka sem hýsir Byggðasafn Árnesinga. Á meðan gestir nutu veitinga greindi Lýður Pálsson frá safninu og þeim sýningum sem þar voru í gangi og settist síðan um borð í rútuna og sagði frá helstu húsum og persónum á Bakka. Þá var haldið í sumarhús Páls Sigurjónssonar og Sigríður Gísladóttur á Stokkseyri sem tóku höfðinglega á móti klúbbfélögum og loks snæddur kvöldverður á veitingastaðnum Fjöruborðið. Ferðin var skipulögð af stallara og þótti takast hið besta.
· Jeppaferð 21. september. Farið var í Jeppaferð laugardaginn 21. september og tóku 11 manns þátt í ferðinni. Lagt af stað frá N1 í Ártúnshöfða í Reykjavík kl.9.00 og ekið þaðan að Þjórsárdal og stoppað í Gjánni og nesti snætt. Næst var ekið að Háafossi. Farið var í Laxárgljúfur og loks stoppað stutt austan Gullfoss, en ekki gengið að fossinum. Snæddur var góður málsverður í lok dags í veitingahúsinu Efstadal við Laugarvatn. Hvatamenn að jeppaferðinni voru þeir Davíð Á. Gunnarsson og Halldór Jónsson, með dyggri aðstoð Gunnars Scheving Thorsteinssonar.
· Ferð til Vínarborgar. Flogið til Bratislava fimmtudaginn 17. október og farið í rútu til Vínarborgar á Tigra hótelið. Fararstjóri á vegum Heimsferða var Gunnhildur Gunnarsdóttir. Auk þess tók félagi okkar Kjartan Óskarsson á móti okkur og fór í ferðir um borgina, einkum um slóðir tónlistarmanna. Margt gerðu félagar skemmtilegt, ráfuðu um borgina, fóru á tónleika, skoðuðu hallir, heyrðu óperur, hittu sendiherrann Auðun Atlason, fóru á svonefnt heuriger-kvöld bjuggu undir sama þaki og Mozart. Afar skemmtileg ferð sem bauð upp á göngur, menningu, skemmtun, mat og drykk. og komið heim mánudaginn 21. október.
· Gönguferð í Búrfellsgjá 7. júní. Lagt var af stað klukkan 11.00 og gangan tók um tvo tíma og fjörutíu og fimm mínútur. Fararstjórnar voru þeir Þráinn Þorvaldsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Magnús Jónsson og miðluðu óspart af fróðleik um sögu og jarðfræði gjárinnar. Alls voru 14 í ferðinni að meðtöldum mökum og börnum.
· Gengið var gjána á enda og endað á því að fara umhverfis gíginn. Fjöldi útúrdúra farinn og skoðaðir hellar, jarðgöng og hleðslur. Ekkert gjálífi var þó á göngumönnum, en GGÞ sagði sögur ganga af því að orðið gjálífi ætti rætur að rekja til réttarballa sem haldin hefðu verið í Búrfellsgjá á 19. öld. Veðurblíða var einstök og var það þakkað Magnúsi.
Árshátíð 23. nóvember. Alls tóku um 95 félagar og gestir þátt í árshátíðinni. Hún hófst að Björtuloftum í Hörpu klukkan 17.00. Egill B. Hreinsson lék á píanó til að byrja með. Forseti bauð gesti velkomna með stuttu ávarpi. Að svo búnu var gengið til borðhalds: Forréttur var klettakálssalat með parmaskinku, mozzarella og hægelduðum tómat. Aðalréttur var steiktur þorskhnakki með kartöflustöppu, ratatouilli grænmeti og jógurtsósu. Á eftir var kaffi og heimagert konfekt. Verð á mann kr. 7.600.- fyrir kvöldverðinn.
Undir borðum var haldin stefnuræða forseta klúbbsins. Að borðhaldi loknu leiddi Sveinn Einarsson gesti í allan sannleika um óperuna Carmen en klukkan 20.00 var óperan flutt í Eldborg að viðstöddum gestum.
Að sýningu lokinni söfnuðust gestir aftur saman á Björtuloftum og voru þar nákvæmlega drykklanga stund. Henni var lokið um klukkan 12.20 eftir miðnætti.
Aðventukvöld í Dómkirkjunni 18. desember. Aðventukvöld var haldið í Dómkirkjunni og hófst dagskrá kl.18.00. Þátttaka var góð og mættu um 80 félagar og gestir. Undirbúningurinn sem og framkvæmdin hvíldi á sr. Hjálmari Jónssyni sem komst þó ekki vegna veikinda. Í kirkjunni bauð Illugi Gunnarsson sóknarnefndarmaður félaga velkomna og hljóp svo til atkvæðagreiðslu í þinginu. Diddú söng svo nokkur lög við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Loks flutti Páll Sigurjónsson pistil um byggingu dómkirkjunnar og fleira. Allt var þetta efni flutt afar vel. Félagar héldu svo á Hótel Borg þar sem drukkinn var fordrykkur og svo sest við borð. Alls voru um 90 mættir með gestum. Hlaðborg svignaði undan kræsingum og borðhald stóð til langt gengin tíu.
Aðalfundur 11. desember. Að venju var kosið í stjórn komandi starfsárs á aðalfundi klúbbsins. Kjörin voru: Ágústa Guðmundsdóttir, viðtakandi forseti, Friðrik Már Baldursson, ritari, Sveinbjörn E. Björnsson, gjaldkeri og Salvör Nordal, stallari. Þau munu starfa undir forsæti Jóhanns Sigurjónssonar á komandi tímabili.
Makar látinna klúbbfélaga: Mökum látinna félaga var færð jólakveðja eins og tíðkast hefur, konfektkassi, daginn fyrir Þorláksmessu og höfðu viðtakandi forseti og stallari veg og vanda af þeirri framkvæmd svo sem verið hefur um langt árabil. Það er þakklátt verkefni og skemmtilegt að afhenda þennan litla glaðning rétt fyrir jólin.
Niðjafundur fyrir 14 ára og yngri. Fundurinn var haldinn föstudaginn 27. desember, 3. í jólum. Um 20 félagar og nærri 40 gestir komu. Boðið var upp á fyrirtaksmat, kjúklinga, franskar og ís. Forseti las söguna um dansinn í Hruna og að því loknu kom Hurðaskellir í heimsókn og dansaði kringum jólatré og gaf sælgæti. Fundi lauk um klukkan 13.20.
Stórtónleikar Rótarý 3. janúar 2014. Þau Alina Dubik og Jónas Ingimundarson fluttu spennandi efnisskrá með söngvum eftir Tsjækovski, Glinka, Chopin og Sígaunalögin eftir Dvorák. Félagi okkar Sveinn Einarsson leikstjóri og rithöfundur flutti þýðingar á öllum textum kvöldsins.
Lokaður kvöldfundur 22. janúar. Lokaður kvöldfundur var haldinn 22. janúar 2014, þar sem að venju var rætt um innri mál klúbbsins. Eftirfarandi mál voru rædd:
· Þráinn Þorvaldsson lagði áherslu á að sagan væri varðveitt og afhenti forseta upptöku af fundi frá forsetatímabili sínu þar sem menn sögðu frá ýmsu skemmtilegu. Þráinn taldi tímabært að ljósmynda félagahópinn aftur, en það var síðast gert fyrir tíu árum. Hann minnti á gönguferðir sem einnig hefðu tekist vel. Auk þess sagði hann mikilvægt að halda í gamlar hefðir.
· Jónas Ingimundarson stakk upp á því að klúbburinn færi í ferð til St. Pétursborgar. Þangað væri gaman að fara undir leiðsögn Péturs Óla Péturssonar.
· Forseti stakk upp á því að farin yrði hópferð á óperuna Ragnheiði og það var samþykkt með lófataki.
· Páll Sigurjónsson sagði að það væri gaman í Rótarýklúbbnum og þakkaði stjórn fyrir vel unnin störf.
· Einnig var rifjað upp að klúbburinn hefði víða hist, á Borginni, Sjálfstæðishúsinu og víðar.
Fundi lauk um klukkan 21.00.
Óperuferð 15. mars. Í vor var frumsýnd ný íslensk ópera, Ragnheiður, eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson. Klúbbfélagar ákváðu að fara saman á 3. sýningu og alls fóru 72 félagar og gestir á sýninguna. Hluti hópsins hittist fyrir sýninguna á Sky Lounge í Ingólfsstræti og snæddi kvöldverð. Höfundar kynntu verkið fyrir sýningu. Sýningin var afar áhrifamikil og tókst vel.
Spilakvöld klúbbsins var haldið 20. mars. Félagar og gestir komu saman og snæddu kvöldverð eftir fordrykk. Eftir það var spiluð félagsvist á fimm borðum undir stjórn Benedikts Jóhannessonar forseta með dyggum stuðningi Diddúar og Sigurðar B. Stefánssonar. Glæsileg verðlaun voru í boði m.a. gisting fyrir tvo á Rangá, léttvín, bækur og súkkulaði. Það bar helst til tíðinda að Ágústa Guðmundsdóttir vann 1. verðlaun annað árið í röð.
Niðjafundur 15 ára og eldri 28. maí. Í stað þess að hafa niðjafund fyrir niðja 15 ára og eldri miðvikudaginn fyrir páska var ákveðið að hafa hann í lok maí. Á fundinum flutti Jóhann Sigurjónsson, viðtakandi forseti, fróðlegt erindi um Rótarýhreyfinguna.
Skákmót rótarýklúbbanna 7. apríl Fyrsta skákmót rótarýklúbbanna á Íslandi var haldið að frumkvæði Rótarýklúbbs Reykjavík Breiðholts. Af 16 keppendum voru fjórir frá Rótarýklúbbi Reykjavíkur. Sveit félagsins skipuð þeim Friðrik Ólafssyni stórmeistara og Benedikt Jóhannessyni fékk silfurverðlaun í sveitakeppni og Friðrik fékk einnig 2. verðlaun í mótinu.
Stórafmæli. Margir félagar áttu stórafmæli á árinu. Klúbburinn færði þeim bókagjafir á þessum tímamótum svo sem venja er.
Stuðningsstarf klúbbsins. Byttan látin ganga rafrænt til stuðnings Mæðrastyrksnefnd í Reykjavík. Alls söfnuðust rúmlega 300 þúsund frá klúbbfélögum.
Heimasíða klúbbsins – Facebook. Klúbburinn á heimasvæði á heimasíðu Rótarýumdæmisins íslenska. Sú síða hefur ekki verið nýtt sem skyldi í vetur.
Stjórn tók strax í júlí í notkun svæði á Snjáldru eða Facebook. Sú síða er auðveld í uppfærslu og fljótlegra að uppfæra hana en heimasíðuna. Flestum fundum vetrarins eru gerð skil þar.
Svava Bjarnadóttir tók fjölmargar myndir af ræðumönnum og viðburðum úr starfi klúbbsins. Einnig tóku þeir Þráinn Þorvaldsson og Sveinbjörn E. Björnsson myndir af einstökum viðburðum, sem og forseti. Margar þessara mynda má sjá á snjáldrusvæðinu.
Forsetakeðja löguð. Á keðju sem forseti ber um hálsinn voru í upphafi árs skildir með nöfnum allra forseta frá stofnun klúbbsins. Keðjan var því orðin býsna þung og stjórn lét það verða sitt fyrsta verk að láta gera nýja keðju þar sem skjöldum var fækkað um helming. Nöfn elstu forseta voru sett á veggskjöld sem geymdur er á skrifstofu klúbbsins. Forseti gengur því hnarreistari nú en áður með miklu léttari keðju um hálsinn.
Félagar tóku því undantekningarlaust vel þegar þeim voru falin einstök verkefni. Rótarýstarfið er eins og annað félagsstarf. Menn fá jafnmikið út úr því og þeir leggja í það.
Erindi voru afar fjölbreytileg á árinu og óhætt er að segja að nefndir hafi sinnt því af metnaði að fá góða fyrirlesara. Óvenjumargir fyrirlesarar innan klúbbsins töluðu í ár og óhætt er að segja að þeir voru afar áheyrilegir og fluttu áhugaverð erindi. Einn helsti kosturinn við félagsstarfið í rótarýklúbbnum er að þar gefst félögum tækifæri til þess að heyra fjölmörg erindi sem ólíklegt er að þeir myndu ella sækja. Því má alls ekki kasta höndum til þessa hluta starfsins. Rétt er að hvetja nefndir til þess að undirbúa erindin með góðum fyrirvara og leggja áherslu á fjölbreytni.
Einum þætti rótarýstarfsins hafa félagar ekki sinnt sem skyldi, en það er heimsóknir í aðra klúbba. Ég hafði haft áhuga á því að við gerðum það með skipulegum hætti þannig að við heimsæktum alla klúbba á höfuðborgarsvæðinu. Af því varð þó ekki, en ég fór í tvo mér til fróðleiks og ánægju. Þó að margir telji að RR sé gamaldags klúbbur verð ég að segja eins og er að hefðir í honum eru frekar minni en í þeim klúbbum sem ég hef komið í og starfið fremur frjálslegt og létt.
Ég játa það fúslega að ég er ekki rótarýmaður af hugsjón heldur lít fyrst og fremst á klúbbinn sem vettvang til þess að kynnast góðu og skemmtilegu fólki. Um leið og starfið verður of hátíðlegt eða tilgerðarlegt hverfur ánægjan að mínu viti. Þess vegna vona ég að áfram takist að halda klúbbnum léttum og skemmtilegum. Lykillinn að því er að stjórn taki sitt hlutverk föstum tökum og jafnframt að þess sé gætt að nýir félagar séu áhugasamir, skemmtilegt fólk með fjölbreytilegan bakgrunn.
Mér finnst mikilvægt að kynna fyrir klúbbfélögum þegar einstakir félagar standa fyrir viðburðum, halda tónleika, skrifa bækur, halda fyrirlestra eða taka þátt í öðru starfi sem ætla má að aðrir félagar hafi áhuga á. Frásagnir af slíku flokkast ekki undir auglýsingastarfsemi heldur eflingu á gagnkvæmum kynnum.
Starfsárið hefur verið viðburðaríkt og skemmtilegt. Sérstaklega þakka ég meðstjórnarmönnum mínum á nýliðnu starfsári mjög ánægjulegt samstarf og samvinnu á árinu. Eins þakka ég Elísabetu Waage sértaklega fyrir gott starf. Klúbburinn og þá ekki síst forsetinn hafa notið góðs af þekkingu hennar og reynslu auk einstakrar samviskusemi.
Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar í störfum fyrir klúbbinn á nýju starfsári. Klúbbfélögum öllum þakka ég ánægjuleg samskipti á starfsárinu og óska þeim og fjölskyldum þeirra alls hins besta.
Reykjavík, 1. júlí 2014
Benedikt Jóhannesson, forseti