Samfélagsverkefni
Af föstum og nokkrum árvissum viðburðum utan venjulegra klúbbfunda má nefna árshátíðir, konufundi, sona- og dætrafundi, leikhúsferðir og ýmis ferðalög um landið okkar til fróðleiks. Kynnis- og námsferðir hafa verið farnar með mökum m.a. til Rómar og Pétursborgar. Þjónusta við eldri borgara Rangárvallasýslu hefur verið árviss atburður nánast frá upphafi starfsemi klúbbsins. Á árum áður sóttu félagar eldra fólkið og óku því á fundarstað og heim aftur en á seinni árum hafa félagar fagnað þeim með veglegri dagskrá í Hvolnum. Konur félaga haf þá ekki legið á liði sínu frekar en fyrri daginn og bakað og séð um framleiðslu fyrir oftast um 120 gesti. Annað samfélagsstarf og ekki síður ánægjulegt er hinn liður í kjörorðum klúbbsins þ.e. „ræktun lýðs og lands“ og eru það árvissar landgræðsluferðir. Á sjöunda áratug síðustu aldar tók klúbburinn svokallaðan Kirkjuhól í fóstur, rétt hjá Keldum á Rangárvöllum. Þar voru haldnir fundir árlega og unnið að lokum rofabarða, sáð í örfoka land og plantað trjám í lundi og skjólbelti. Þegar því starfi var lokið var kröftunum beint að uppgræðsluverkefnum í Þórsmörk og hefur þar náðst mikill og góður árangur á Stakkholti og á Rananum. Enn eitt verkefnið í þágu samfélagsins hefur falist í því að frá því 1987 hafa félagar og fjölskyldur þeirra safnað árlega rótum af lúpínu sem Ævar Jóhannesson og Kristbjörg Þórarinsdóttir hafa síðan soðið af svokallað lúpínuseyði. Á hverju hausti hefur klúbburinn safnað nokkrum tonnum af rótum. Þúsundir Íslendinga telja sig eig líf sitt og/eða bætta heilsu seyðinu að þakka. Rótarýklúbbur Rangæinga hefur staðið fyrir stórum opnum ráðstefnum m.a. Græðum Ísland- hvað get ég gert?, ferðamálaráðstefnu og ráðstefnu um málefni fatlaðra í sýslunni.
Haldið var Njálunámskeið á Hvoli og reglulega eru veittar viðurkenningar síðan árið 1996 til þeirra einstaklinga, eða fyrirtækja í héraði sem sýna framúrskarandi árangur í hverju því sem til framfara horfir fyrir samfélagið.
Sveinn Runólfsson tók saman