Hauststarfið hefst með Þórsmerkurferð
Grillveisla í Básum í Goðalandi
Félagar í Rótarýklúbbi Rangæinga fóru ásamt góðum gestum í Þórsmerkurferð á fyrsta fundi haustsins. Tókst ferðin vel, veðrið lék við klúbbmenn og náttúran skartaði sínu fegursta þrátt fyrir öskufall undanfarinna ára.
Félagar í Rótarýklúbbi Rangæinga hófu hauststarf ársins með Þórsmerkurferð. Farið var með rútu Kynnisferða og ók Finnbogi Ómarsson hópnum eins og hann hefur gert undanfarin ár. Ekið var inn í Húsadal og staðarhaldarar þar heimsóttir. Svo var haldið tilbaka yfir Krossá og haldið inn í Bása á Goðalandi. Þar var grillað og snætt og voru Útivistarmenn svo rausnarlegir að bjóða hópnum húsaskjól og aðstöðu til eldamennsku. Klúbbfélagar þeir Hreinn Óskarsson, Ólafur Ólafsson og Sváfnir Sveinbjarnarson lýstu staðháttum og sögðu sögur af svæðinu meðan á rútuferð stóð. Guðmundur Halldórsson gladdi klúbbmenn með nokkrum vísum. Komu klúbbmenn og gestir heim síðla kvölds afar ánægðir með góða ferð.