Saga klúbbsins

Rótarýklúbbur Ólafsvíkur

Tekið saman fyrir 50 ára afmælisrit Rótarý á Íslandi

Þann 14. september 1968, eða daginn eftir að Rótarýklúbbur Reykjavíkur varð 34 ára, var stofnfundur Rótarýklúbbs Ólafsvíkur haldinn í Safnaðarheimili Ólafsvíkurkirkju, en þar varð fundarstaður klúbbsins hátt í áratug.

Stofnfélagar voru 22, og fyrstu stjórn skipuðu þeir Alexander Stefánsson forseti, Bjarni Olafsson varaforseti, Hermann Hjartarson ritari, Leó Guðbrandsson gjaldkeri og Hörður Guðmundsson stallari. Fullgildingarbréf var útgefið 28. nóvember sama ár.

Umdæmisstjóri var sr. Guðmundur Sveinsson, skólastjóri Samvinnuskólans að Bifröst, en hann ásamt félögum út Rótarýklúbbi Stykkishólms aðstoðuðu ötullega við allan undirbúning og leiðbeindu í fyrstu.

Enginn þjónustuklúbbur hafði, þegar þetta gerðist, starfað í Ólafsvík, en hefðbundin félög settu svip sinn á félagslíf staðarins eins og víðast annars staðar.

Stofnfélagarnir 22 tóku strax allar reglur og starfshætti alvarlega, og í þau 15 ár sem klúbburinn hefur starfað hefur t. d. fundarsókn verið allgóð. Vert er að geta þess, að á afmælishátíð klúbbsins á sl. hausti var einn félaginn heiðraður fyrir fullkomna fundarsókn í öll fimmtán árin. Er það Lúðvík Þórarinsson bakarameistari. Erum við að sjálfsögðu stoltir af slíkum félaga, enda köllum við hann okkar í milli 1500% félagann.

Eins og áður sagði, aðstoðuðu klúbbfélagar úr Stykkishólmi okkur vel og drengilega í klúbbstarfinu í fyrstu. Hefur samstarf klúbbanna síðan alltaf verið mikið og gott. t.d. hafa þeir alltaf haldið sameiginlegar árshátíðir og þá til skiptis á stöðunum. Þetta samstarf hefur stundum náð til hinna klúbbanna á Vesturlandi, þ. e. klúbbanna í Borgarnesi og á Akranesi.

Samstarf klúbbanna í Stykkishólmi og Ólafsvík stóð þó hæst, er þeir í sameiningu sáu um undirbúning umdæmisþings að Laugarvatni sumarið 1973. Er það öllum mjög eftirminnilegur og ánægjulegur atburður.

Af framansögðu gengur Stykkishólmsklúbburinn að sjálfsögðu undir nafninu "móðurklúbburinn" innan okkar klúbbs, og segja verður það hreinlega, svona innan léttra formerkja. að við þetta samstarf fórum við Ólsararnir að skoða þá Hólmara í vinsamlegra ljósi og jafnvel bera fyrir þeim virðingu, sem ég segi nú kannski ekki að hafi ekki verið einhver fyrir hendi. Kannski má af þessu sjá bestu kosti rótarýstarfsins.

Klúbbstarfið tók fljótlega á sig fast form, sem að mestu hefur haldist síðan. Hinar formlegu nefndir urðu vel virkar, og mikil fræðsla um þjóðmál og alþjóðamál varð strax áberandi þáttur í starfinu. Fjölmargir gestir voru með fyrirlestra í þessum efnum, einnig hefur framlag félaganna sjálfra verið verulegt, bæði á þjóðmálasviðinu og einnig þeirra, er ferðast hafa til útlanda. Hafa þeir þá gjarnan látið félagana njóta góðs af því í máli og myndum á klúbbfundum.

En það sem þó skiptir mestu máli í klúbbstarfinu er fastmótað og kerfisbundið framlag félaganna sjálfra í formi fastra fundarþátta og oft góðar og gagnlegar umræður í kjölfar þeirra.

Samskipti við erlenda rótarýklúbba hafa að mestu verið í formi erinda, sem berast. Hefur ávallt verið reynt að leysa á viðunandi hátt úr þeim og standa þannig fyllilega skil á þeim verðmætum, sem oft eru send í þessu skyni. Á sama hátt hefur verið tekið á móti erlendum rótarýgestum eftir föngum og þeim gjarnan sýnt það markverðasta, sem um er að ræða hér um slóðir.

Eiga félagarnir hér margar góðar minningar frá slíkum gestakomum.

Ef ræða á einstaka þætti í starfi klúbbsins, aðra en hefðbundna, mætti nefna hér nokkuð til.

Um árabil hefur klúbburinn örvað námsárangur unglinga í Grunnskóla Ólafsvíkur með bókaverðlaunum til þeirra, er hæst standa í vissum námsgreinum. Verðlaunahöfum hverju sinni er síðan boðið til borðhalds á fundi í klúbbnum, og þar eru þeir fræddir um Rótarý.

Rótarýklúbbur Ólafsvíkur er aðili að Vinafélagi eldri borgara í Ólafsvík og nágrenni, en að því standa flest félög í bænum. Tilgangur þessa félags er að stuðla almennt að velferð þessa fólks, en fyrst og fremst að gefa því kost á að koma saman og hittast einu sinni í mánuði, á tímabilinu frá hausti til vors. Aðildarfélögin ein sér eða tvö saman sjá um samveru hverju sinni. Þar er boðið upp á veitingar, fræðslu og skemmtiefni, og svo er oft dansað. Er þessi starfsemi Vinafélagsins nú orðin föst í sessi og nýtur vinsælda hjá hinum eldri borgurum.

Um hver áramót er haldin jólaskemmtun fyrir börn og aðra fjölskyldumeðlimi félaganna. Þá má geta þess, að um árabil hefur klúbburinn ljósaskreytt hluta af aðalgötu bæjarins um jólahátíðina.

Fljótlega hófust fastir þættir í skemmtistarfi klúbbfélaga, þar sem eiginkonur og gestir voru með. Utan venjulegra árshátíða, sem áður er getið, er eitt fast fundarkvöld á ári kallað "Konukvöld", án venjulegrar fundardagskrár . Er ýmislegt um hönd haft til skemmtunar, og ávallt er veislumatur á borðum. Enginn vetur má líða, að ekki sé farin sameiginleg hópferð í leikhús höfuðborgarinnar. Eru ferðir þessar oft sögulegar vegna yfirfærðar og veðra svona um háveturinn. Meðal bæjarbúa er til skilgreining á vondu veðri, sem kallast "rótarýferðaveður". En leikhúsferð í febrúar eða mars í ekta "rótarýferðaveðri" lifir oft lengst í minningunni.

Það mun ekki óþekkt fyrirbrigði, að rótarýmönnum þyki mætingarskyldan nokkuð þung yfir sumartímann. Sérstaklega mun þetta þó eiga við í dreifbýlinu og þar sem aðrir þjónustuklúbbar starfa, en taka sér góð sumarleyfi frá fundarsókninni. Í okkar klúbbi hefur nokkuð verið gert af því að flytja einstaka fundi út og þá í sérstök verkefni. T. d. höfum við í mörg ár notað tvö fundarkvöld á sumri hverju í að slá, hreinsa og snyrta Kirkjugarðinn. Fyrst í stað þótti þetta nú ekki árennilegt verk, en er nú orðið ánægjulegt útifundarverkefni.

Fljótlega eftir stofnun Rótarýklúbbs Ólafsvíkur voru stofnaðir hér þjónustuklúbbarnir Lions og Kiwanis, sem starfað hafa með ágætum. Um 1980 hófst samstarf milli allra þjónustuklúbbanna hér og Lionsklúbbsins á Hellissandi um að koma upp skíðalyftu á Fróðárheiði. Eftir að skíðalyftan hafði verið keypt til landsins og hún hafði verið sett upp á umræddum stað, var hún afhent nærliggjandi sveitarfélögum til eignar og reksturs. Vart er hægt að hugsa sér verk, sem meira er unnið í þágu æskufólks og jafnvel fullorðinna líka en slík skíðamiðstöð er.

Flest verkefni krefjast fjármuna, og eins og kunnugt er, eru viðurkenndar leiðir til fjáröflunar ekki eins margar hjá rótarýmönnum og félögum annarra þjónustuklúbba.

Drýgsta fjáröflunarleið okkar hefur um árin verið sjóróðrar til fiskveiða. Hafa útgerðarmenn hér verið þjónustuklúbbunum mjög innan handar um lán á fiskiskipum án endurgjalds. Þá hafa þeir einnig látið sérhæfða starfsmenn fiskiskipanna fylgja með, ef þess hefur verið þörf.

Síðasti fiskiróður okkar rótarýmanna var farinn í febrúar á s.l. ári á m/s Fróða. Róið var með fiskilínu á veiðisvæði vertíðarbátanna vestur af Snæfellsnesi. Afrakstur þeirrar veiðiferðar varð verulegur hlutur í kostnaði við endurnýjun á þaki Ólafsvíkurkirkju, sem stórskemmst hafði í ofviðri. Um þessar mundir er óljóst um frekari fiskveiðar, alla vega í bili, því að ekki verður að teljast líklegt, að kvóti fáist í öllum þeim fiskveiðitakmörkunum, sem nú eru í gildi.

Við stofnun Rótarýklúbbs Ólafsvíkur í september 1968 var yfirstandandi kreppa í sjávarútvegs- og fiskframleiðslumálum á Íslandi. Mjög mikið verðfall hafði orðið á aðalfreðfiskmörkuðum, og síldin var alveg horfin. Óvissa og nokkur ótti var ríkjandi í flestum sjávarútvegsbæjum á landinu. Ólafsvík var þar engin undantekning.

Telja verður, að stofnun rótarýklúbbsins hér við áðurnefndar kringumstæður hafi komið sér einkar vel, en þá settust saman undir merkjum rótaraýfélagsskaparins forystumenn í atvinnugreinunum, menn úr hinum ýmsu stéttum atvinnuveganna og úr sveitarstjórninni.

Ekki fór á milli mála, að skilyrði fyrir að þjóna og upplýsa voru ríkulega fyrir hendi. Yfirveguð og upplýsandi umræða varð því fljótt áberandi þáttur í klúbbstarfinu.

Nú þegar klúbburinn okkar hefur starfað í hálfan annan áratug, trúum við félagarnir því staðfastlega, að umbótaáhrif af starfinu séu veruleg hér í Ólafsvík, en að sjálfsögðu ætti það að vera annarra að dæma þar um.

En ekki verður svo rætt um rótarýstarf á Íslandi og áhrif þess á menn og málefni, þar sem það fer fram, að ekki komi fyrst upp í hugann brautryðjandinn, Rótarýklúbbur Reykjavíkur, sem á þessu ári á að baki 50 ára forystustarf í hreyfingunni. Það starf hefur hann rækt af miklum sóma.

Hér skulu nú færðar fram innilegar hamingjuóskir og þakkir til handa afmælisbarninu, og ef þeim félögum í Rótarýklúbbi Reykjavíkur þætti það einhvers virði, sem afleiðing af forystustarfi þeirra í rótarýhreyfingunni á Íslandi, hefur hér verið leitast við að segja frá starfi eins af hinum minni klúbbum umdæmisins, sem starfað hefur s. l. 15 ár í Ólafsvík á Snæfellsnesi.