Fréttir
eRótarý veitir samtökunum „Allir gráta“ viðurkenningu
Rótarýklúbburinn eRótarý Ísland veitti nýverið félagasamtökunum Allir gráta viðurkenningu fyrir framlag samtakanna til bættrar geðheilsu ungmenna á Íslandi.
Forseti klúbbsins, Anton Máni Svansson, afhenti formanni samtakanna, Aron Má Ólafssyni, viðurkenningarskjalið við formlega athöfn á sérstökum klúbbsfundi eRótarý.
Með viðurkenningunni vill klúbburinn hvetja samtökin áfram í sínu göfuga og óeigingjarna starfi. „Allir gráta eru ung samtök með gífurlega möguleika, við trúum því að þau geti skipt sköpum fyrir framtíð okkar ungu Íslendinga,“ segir Anton Máni forseti eRótarý. Auk viðurkenningarinnar keypti klúbburinn #Allirgráta nælur sem samtökin selja til fjáröflunar og hvetur aðra rótarýklúbba á Íslandi til að gera slíkt hið sama. Næluna má kaupa í verslunum Húrra Reykjavík og í völdum verslunum NTC en einnig er hægt að leggja frjáls framlög inn á reikning samtakanna nr. 528-14-404866, kt. 561216-0530.
Samtökin Allir gráta voru stofnuð af Aroni, Hildi Skúladóttur og Orra Gunnlaugssyni í desember 2016 en að þeirra sögn spratt hugmyndin upp hjá Aroni eftir að hann opnaði sig um þunglyndi sitt í beinni útsendingu á Facebook Live þar sem þúsundir fylgdust með. Síðan þá hefur Aron, sem er betur þekktur á meðal yngri kynslóðarinnar sem Snapchat-stjarnan aronmola, nýtt þau áhrif sem hann hefur á netmiðlum til að hvetja börn og unglinga til að opna sig og ræða opinskátt um líðan sína. Einnig hafa samtökin staðið fyrir fyrirlestrum í grunn- og framhaldsskólum um allt land og stofnað styrktarsjóð fyrir málefnið með það að markmiði að styrkja árlega verkefni tengd eflingu geðheilsu ungmenna á Íslandi.
Rótarýklúbburinn eRótarý Ísland var stofnaður 2012 og er örlítið frábrugðinn öðrum Rótarý klúbbum á Íslandi. Meðalaldur klúbbfélaga er nokkuð lægri en gengur og gerist í rótarýklúbbum á Íslandi og auk hefðbundinna fundarhalda eru þar einnig haldnir netfundir sem gera klúbbnum kleift að ná til Íslendinga sem búsettir eru erlendis. Eftir heimsókn Arons á fund klúbbsins þar sem hann sagði frá starfi sínu með Allir gráta kviknaði mikill vilji til þess að styðja við samtökin og hvetja þau áfram. Auk þess má finna ákveðna speglun í því sem samtökin standa fyrir í áherslum Knúts Óskarssonar, umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi starfsárið 2017-2018, en hann hefur kosið að beina sjónum sínum að sjálfsmynd barna og unglinga sem í auknum mæli byggist á samfélagsmiðlum sem valdið getur kvíða og hugarangri.