Fréttir

3.5.2012

Stofnfundur Rotary E-Club of Iceland var haldinn 18. apríl

Stofnfundur nýja klúbbsins var haldinn 18. apríl sl. og eru stofnfélagar 25 talsins. Umsókn um fullgildingu klúbbsins hefur verið send til Rotary International. Þegar viðurkenning klúbbsins hefur borist verður haldinn formlegur fullgildingarfundur. Fyrsti forseti klúbbsins var kjörin A. Agnes Gunnarsdóttir.

Viðtakandi forseti er Perla Björk Egilsdóttir.  Aðrir sem kjörnir voru í stjórn eru Hulda Bjarnadóttir sem ritari, Eiríkur Magnús Jensson sem gjaldkeri, Kristján Leifsson sem stallari og Guðmundur Gísli Ingólfsson sem varaforseti.  Stofnfundurinn samþykkti sérlög klúbbsins og valdi klúbbnum heitið eRótarý Ísland og á ensku Rotary E-Club of Iceland.

Klúbburinn höfðar einkum til ungs fólks sem er félagslega sinnað og virkt í þjóðfélaginu. Hann er fyrsti netklúbburinn í umdæminu. Í því felst að hann nýtir sér nútíma samskiptatækni til fundarhalda en jafnframt hyggjast félagar hittast tvisvar í mánuði. Fundartími og -staður verður ákveðinn á næstunni.

Líflegt starf Rótarýklúbbanna byggist á gagnlegum og skemmtilegum fundum og verkefnum. Með stofnun eRótarý Íslands eykst enn fjölbreytnin í Rótarýfjölskyldunni. Fyrir eru þrjátíu Rótarýklúbbar og Rótaractklúbburinn Geysir. Við væntum mikils af hinum nýja klúbbi og óskum þess innilega að hann megi dafna vel. Við getum öll glaðst yfir því að fá í Rótarýhreyfinguna ungt, drífandi fólk sem vill vinna mannúðar- og menningarstarf, stuðla að skilningi milli starfsgreina og landa, og hvetja til siðgæðis, góðvildar og friðar í heiminum.