Gróður og umhverfi
Gróður og umhverfi
Glaðværir Rótarýfélagar hvíla lúin bein eftir ánæjulega gróðursetningu.
Á innlendum vettvangi kemur Rótarýhreyfingin að margvíslegum samfélagsmálum. Eitt þeirra varðar umhverfismál á félagssvæði klúbbanna og er þess að vænta að þau verði ofarlega á dagskrá Rótarýhreyfingarinnar hér á landi í framtíðinni.
Allt frá stofnun Rótarýklúbbs Kópavogs hefur klúbburinn látið sig þessi mál varða. Þannig kemur fram í fundargerð dómnefndar um fegrun húsa og lóða í Kópavogskaupstað frá 19. maí 1964 að Jóhann Schröder garðyrkjumaður og félagi í Rótaryklúbbi Kópavogs hafi sagt frá því að klúbburinn hafi skömmu áður ákveðið að verðlauna fegursta garðinn í bænum og gefa til þess verðlaunagrip. Á sama fundi dómnefndarinnar kom fram að æskilegt væri að fá fleiri verðlaunagripi svo að hægt væri að veita fyrstu og önnur verðlaun í vestur og austurbæjarhluta. Ákveðið var á þessum fundi að velja bæði garða og falleg hús til að verðlauna. Nefndin samþykkti síðar að Rótarýklúbbur Kópavogs og Lionsklúbbur Kópavogs skyldu veita verðlaunin fyrir fallegustu garðana bæði í vestur og austurbæ.
Bæjarstjórn Kópavogs veitti síðan verðlaun fyrir þrifnað og smekklega umgengni á einkalóðum og iðnaraðsvæðum. Fyrstu garðarnir sem fengu verðlaun voru í vesturbæ Borgarholtsbraut 13, eigandi Sigurlaug Björns dóttir og í austurbæ Hátröð 4, eigandi Sölvi Eysteinsson. Bæjarstjórn veitti viðurkenningu fyrir smekklegan garð að Nýbýlavegi 26.
Sama tilhögun í veitingu verðlauna hefur að mestu haldist óbreytt frá byrjun, aðeins hefur fjölgað verðlaunaveitingum frá bæjarstjórn svo sem fyrir listaverk í görðum, litaval á húsum, heildargötumynd og iðnaðar og verslunarhús ásamt lóðum þeirra.
Það er ánægjulegt að minnast þess að Rótarýklúbbur Kópavogs hafði frumkvæði að því að veita viðurkenningu fyrir fagra garða í bænum og átti þannig þátt í að auka menningu og fegurðarmat í ræktun og umhirðu húsa.
Uppgræðsla í Lækjarbotnum
Árið 1989 ákváðu félagar í Rótarýklúbbi Kópavogs að helga sér ógróinn blett í bæjarlandinu til að hlynna að og klæða grænum skrúða. Fyrir valinu varð svæði sunnan girðingar við Kópasel og þar var sáð 2 kg af lúpínufræi.
Sama ár, sem var sérstakt átaksár í skógrækt, tóku félagar þátt í sölu grænu greinarinnar í Kópavogi og stóðu þar vel að verki. Auk þess gróðursettu þeir trjáplöntur á Leirdalssvæðinu á vegum Átaksins og plöntuðu 130 lúpínuhnausum í melkoll norðan Kópasels.
Árið 1993 sótti klúbburinn um til bæjarráðs Kópavogs að fá úthlutað landi í Lækjarbotnum til gróðursetningar. Erindið var samþykkt 14. október sama ár og var afmarkað land 1,7 hektarar að stærð. Fram kemur í bréfi til klúbbsins að allar framkvæmdir verði í samráði við garðyrkjustjóra Kópavogs og hefur sú samvinna gengið vel.
Í gróðurreitnum í Lækjarbotnum haustið 2010. Rótarýfélagar standa umhverfis íslenskt lerkiborð með merki Rótarý, sem Kristinn Skæringsson, formaður landgræðslunefndar, lét Merkingu ehf grafa á, en Einar Finnbogason, Rótarýfélagi okkar, sá um að gera umgjörð úr plastgleri sem hefur hlíft skiltinu. Skiltið var sett upp 1994. Á myndinni er Kristinn Slæringsson lengst til vinstri.
Gróðursett hefur verið árlega og borinn á áburður sem hefur verið frá garðyrkjustjóra og greitt fyrir úr sjóði á vegum Landgræðslu ríkisins. Plantað hefur verið um 1000-1500 plöntum af birki, furu og sitkagreni.
Landið liggur með girðingu sem reist var og nefnd ofanbyggðagirðing og heldur fé frá borgarlandinu. Hún verður rifin á næstu árum og hefur Rótaryklúbbi Kópavogs verið heimilað að fara upp fyrir hana og bæta við landi til skógræktar.
Helstu forystumenn klúbbsins á sviði gróðurs og umhverfis
Ótvíræðir forystumenn klúbbsins á sviði gróðurs og umhverfis undanfarna áratugi hafa verið þeir Jón Ragnar Björgvinsson, Kristinn Skæringsson og Vilhjálmur Einarsson. Klúbbfélagar stefna að því á næstu árum að sinna ræktunar- og fegrunarstarfi áfram af auknum krafti og áhuga. Ekki er nokkur vafi á að það eykur samheldni, skilning og félagsþroska klúbbfélaganna.
Fróðleiksskiltin
Frá árinu 1996 hefur umhverfisráð Kópavogs í samstarfi við Kiwanis, Lions og Rótarýklúbba bæjarins staðið fyrir gerð og uppsetningu fróðleiksskilta í bænum. Hlutverk skiltanna er að opna augu bæjarbúa fyrir umhverfi sínu og gera sögu bæjarins sýnilegri. Umfjöllunarefni getur verið náttúruminjar, þjóðminjar, söguminjar, þjóðtrú, náttúrufar, dýralíf og ýmislegt annað.
Bæjarskipulag og garðyrkjustjóri Kópavogs hafa yfirumsjón með staðsetningu skiltanna og frágangi umhverfis þau. Á skiltunum kemur fram í máli og myndum náttúra og saga staðarins sem þau standa við og má skoða þau á heimasíðu Kópavogs.
Fróðleiksskiltin hafa verið sett upp á eftirtöldum stöðum:
1996 - Kópavogsleira - fuglaskilti
1997 - Kópavogsleira - sandfjaran
1998 - Víghóll
1999 - Digranesbær
2000 - Þinghóll
2001 - Borgarholt
2002 - Tröllabörn í Lækjarbotnum
2003 - Kópavogslækur
2004 - Trjálundir í Digraneshlíðum - Álfhóll
2005 - Fossvogur - Engjaborg
2006 - Hádegishólar. - Einbúi
2007 - Trjásafn, grjótnám, nýbýli. - Markasteinn
2008 - Hlíðargarður
2009 - Elliðavatn
2010 -
2011 -
Haukur Ingibergsson, forseti klúbbsins 2009-2010, afhendir Gunnsteini Sigurðssyni, bæjarstjóra, fróðleiksskilti um Elliðavatn og umhverfi þess. Þingnes er með merkari stöðum við vatnið og tilheyrir bæði Kópavogi og Reykjavík. Þar er talið að sé elsti þingstaður Íslands eða hið forna Kjalarnesþing, sem haldið var áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum um 930. Árið 1938 var Þingnes friðlýst samkvæmt þjóðminjalögum.