Eldhuginn og verðlaun til æskufólks

Eldhuginn og verðlaun til æskufólks

Í stað Íþróttamanns ársins er Eldhuginn kominn til sögunnar

Styrkir til skólabarna

Á allra fyrstu árum í sögu Rótarýklúbbs Kópavogs var rætt um með hvaða hætti klúbburinn gæti látið gott af sér leiða með stuðningi við æskulýðsstarf í Kópavogi. Voru þá m.a. gefnir verðlaunabikarar til Gagnfræðaskóla Kópavogs sem þeir nemendur skyldu fá sem borið höfðu af með háttprýði og ástundun. Haustið 1966 var nýstofnuðu taflfélagi fært að gjöf 10 vönduð taflsett. Einnig var stutt við bakið á skátum í Kópavogi. Ennfremur voru síðar veitt verðlaun fyrir námsárangur í skólum.

Á allra síðustu árum hafa verið veittir peningastyrkir til efnilegra nemenda sem útskrifast frá Menntaskólanum í Kópavogi.

7-2-MK-utskrift

 Helgi Laxdal afhendir Selmu Lind Jónsdóttur nemanda í MK viðurkenningu Rótarýklúbbs Kópavogs fyrir góðan námsárangur í raungreinum á stúdentsprófi.

Íþróttamaður ársins

Árið 1974 var enn bryddað upp á nýungum en þá ákvað klúbburinn að velja og útnefna íþróttamann ársins í Kópavogi. Var þetta gert með glæsibrag á hátíðafundum um 15 ára skeið á árunum 1974-1989 að viðstöddum fjölmiðlum og vakti þessi starfsemi hjá klúbbnum landsathygli. En 1989 tók Íþróttaráð Kópavogs að velja íþróttamann ársins, og varð að samkomulagi að íþróttaráðið tæki að sér þetta verkefni sem Rótarýklúbburinn hafði annast um svo langa hríð. Féll því þessi þáttur niður í starfsemi klúbbsins.

Frá þessum þætti í æskulýðsstarfi klúbbsins segir sá mikli eldhugi Guðmundur heitinn Arason, járnsmiður, sem var helsti hvatamaður að þessu starfi á sínum tíma, í 30 ára afmælisriti klúbbsins og greinir þar frá öllum þeim er verðlaunin hlutu á þessu árabili og fyrir hvað viðurkenningin var veitt og vísast um það efni til þess rits.

Viðurkenningarnefnd og Eldhugi Kópavogs

Á næstu árum var rætt innan klúbbsins með hvaða hætti mætti hvetja og örva fólk í Kópavogi til góðra verka fyrir bæjarsamfélagið. Varð niðurstaðan sú og enn að frumkvæði Guðmundar Arasonar að árið 1996 var samþykkt eftirfarandi hlutverk fyrir sérstaka viðurkenningarnefnd sem starfa skyldi innan klúbbsins og segir þar m.a.:

„Hlutverk Viðurkenningarnefndar Rótarýklúbbs Kópavogs er að velja árlega einstakling eða einstaklinga úr röðum Kópavogsbúa, sem með sérstöku framtaki hafa vakið athygli og umtal á þann hátt sem samræmist anda og hugsjón Rótarý. Hér getur verið um að ræða afrek á sviði lista, menningarmála, nýjunga ýmisskonar, uppfinninga, björgunar úr lífsháska, íþrótta, mannlegra samskipta eða annara greina, sem nefndinni finnst skara framúr. Sem viðurkenningu mundi nefndin láta gera verðlaunagripi áritaða með nafni viðkomandi og ástæðu fyrir viðurkenningunni.

Gripina skal afhenda viðtakendum á sérstökum fundi í maí á hverju ári og þeim gefið tækifæri til að halda fyrirlestur um einhver áhugamál sín.“ Þá er þess getið hvernig athöfn verðlauna afhendingar skuli háttað á fundi, en það sé gert við hátíðlega athöfn, á formlegan og virðulegan hátt með ávarpi forseta sem afhendir verðlaunagripinn, en að lokum tali viðurkenningarþegi um sjálfvalið efni.

Reglur þessar hafa verið óbreyttar þar til árið 2010, en þá var þeim lítillega breytt þannig: „Að öðru jöfnu skulu viðtakendur verðlaunanna vera eða hafa verið búsettir í Kópavogi eða framtakið, sem um ræðir, hafa átt sér stað í bæjarfélaginu.“

7-1-Eldhugi_Anna

Anna Bjarnadóttir var tilnefnd Eldhugi Kópavogs árið 2007, fyrir frumkvæði og stjórnun fatasendinga til ungbarna í þróunarríkjum undir merkinu: Föt sem framlag. Á myndinni eru með henni Þórir Ólafsson, forseti klúbbsins og Haukur Hauksson, formaður viðurkenningarnefndar.

Þau 15 ár sem viðurkenningar þessar hafa verið veittar undir heitinu „Eldhugi Kópavogs“ hafa þær jafnan vakið landsathygli, birst fréttir um þetta í fjölmiðlum innanlands en einnig í tímaritinu Rótarý Norden og hefur það vakið athygli klúbbfélaga að þar hafa birst fréttir á síðari árum um að aðrir klúbbar á Norðurlöndum hafa tekið upp samfélagsviðurkenningar á sínu klúbbsvæði í sama anda og við höfum gert hér í Kópavogi.

Viðurkenningarnar hafa almennt ekki verið veittar fyrir aðalstarf viðkomandi persónu heldur fyrir störf sem innt hafa verið af hendi sem framlag í þágu samfélagsins utan hins hefðbundna lífsstarfs.

Eftirtaldir hafa verið útnefndir Eldhugar Kópavogs frá upphafi og til þessa dags:

Ár Nafn Fyrir
1997 Jónas Ingimundarson tónlistarstarf
1998 Þórunn Björnsdóttir söngmálastarf
1999 Guðmundur H Jónsson skógrækt
2000 Þorsteinn Einarsson íþróttaleiðtogastarf
2001 Gylfi Gröndal ritstörf - einkum ævisögur
2002 Ásdís Skúladóttir störf að öldrunarmálum
2003 Ævar Jóhannesson náttúrulækningar
2004 Þorvaldur Jacob Sigmarsson störf í þágu skátahreyfingarinnar
2005 Ásgeir Jóhannesson uppbyggingu Sunnuhlíðar o.fl.
2006 Sigríður Einarsdóttir og
Sólveig Jónasdóttir

frumkvæði að stofnun myndlistarskóla í Kópavogi
2007 Anna Bjarnadóttir frumkvæði og stjórnun fatasendinga til ungbarna í þróunarríkjum undir merkinu: Föt sem framlag
2008 Marteinn Sigurgeirsson gerð og varðveislu heimildamynda um Kópavog, uppbyggingu, sögu og mannlíf.
2009 Páll Theódórsson vísinda og frumkvöðlastarf
2010 Össur Geirsson tónlistarstarf
2011 Þorbjörn Jensson
störf að málefnum ungs fólks á aldrinum 16-24 ára
 2012 Magnús Jakobsson
störf að félagsmálefnum íþróttafólks í 59 ár.
 2013 Margrét Bjarnadóttir
störf að íþrótta- og heilsuræktarmalum
 2014 Guðbjörg Kristjánsdóttir
Íslensku teiknibókina
 2015
Vilmundur Guðnason
vísinda og frumkvöðlastarf
 2016 Þórður Guðmundsson
frumkvöðlastarf fyrir Sögufélag Kópavogs
 2017 Hallfríður Ólafsdóttir
tónlistaruppeldi æskufólks
 2018 Þórður Árnason
framlag til sögu Kópavogs
 2019    
 2020    
 2021