Sunnuhlíð
Sunnuhlíðarsamtökin og þátttaka Rótarýklúbbs Kópavogs
Alþjóðaforsetinn H. Musaka frá Japan kom í heimsókn 1983 og heimsótti þá Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð. Við það tækifæri gróðursetti hann lítið grenitré frá Rótarýhreyfingunni sem nú gnæfir hátt í garði heimilisins. Á myndinni má þekkja félaga okkar þá Kjartan Jóhannsson, lækni, Ásgeir Jóhannesson þá formann Sunnuhlíðarsamtakanna og Pétur Maack fyrrv. umdæmisstjóra
Samtök um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða – Sunnuhlíðarsamtökin – voru stofnuð af 9 félögum og klúbbum í Kópavogi hinn 17. mars árið 1979. Rótarýklúbbur Kópavogs var á meðal stofnaðila og hefur átt þar félagsaðild síðan. Frá stofnun, rekstri og framþróun Sunnuhlíðar fyrstu 12 árin er ítarlega sagt í 30 ára afmælisriti Rótarýklúbbsins enda hefur stuðningur við Sunnuhlíð verið veigamikill þáttur í starfsemi klúbbsins allt frá upphafi.
Um þetta starf segir fyrsti forseti Rótarýklúbbs Kópavogs, Guttormur Sigurbjörnsson, í 50 ára afmælisriti Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi m.a.:
„Merkasta átak klúbbsins á sviði mannúðarmála er án efa þátttaka hans í byggingu sjúkraheimilis fyrir aldraða að Sunnuhlíð í Kópavogi.”
Árið 1982 kom alþjóðaforseti Rótarý Mr. Musaka frá Japan í heimsókn til Íslands. Heimsótti hann m.a. Sunnuhlíð og gróðursetti þá lítið grenitré í garði Sunnuhlíðar. Nú nær 30 árum síðar er þetta Rótarýtré eitt hið stærsta og glæsilegasta á lóð hjúkrunarheimilisins.
Frá útkomu 30 ára afmælisrits klúbbsins okkar hafa Sunnuhlíðarsamtökin lokið byggingu 68 þjónustuíbúða fyrir aldraða auk þeirra 40 sem teknar voru í notkun árið 1987. 40 íbúðir voru teknar í notkun fyrri hluta árs 1991 að Kópavogsbraut 1 B og 28 íbúðir að Fannborg 8 síðari hluta sama árs. Þetta eru íbúðir af þremur stærðum þ.e. þriggja herbergja, tveggja herbergja og stofuíbúðir með svefnkrók, eldhúsi, baði og geymslu, öllum íbúðunum fylgja svalir. Að allri fjármögnun og byggingarframkvæmdum var staðið með sama hætti og við byggingu fyrri íbúða. Einnig var eignafyrirkomulag með sama hætti og áður.
Með árunum fjölgaði öldruðu fólki í Kópavogi og vaxandi þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma. Þó voru slík rými miklu færri í Kópavogi hlutfallslega en í nágrannasveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Enginn vafi er á því að hinar góðu þjónustuíbúðir sem Sunnuhlíð hafði reist dró úr þeirri þörf og seinkaði nauðsyn þess að aldraðir einstaklingar þyrftu að leggjast inn á hjúkrunarheimilið. Einnig var til staðar dagdvöl á vegum Sunnuhlíðar sem tók allt að 40 manns í dagvistun vikulega og hefur verið starfrækt í meira en 20 ár við miklar vinsældir og aðsókn.
Vegna vaxandi fjölda á biðlista eftir vist á hjúkrunarheimilinu ákvað stjórn og fulltrúaráð Sunnuhlíðar á aðalfundi 1999 að hefja byggingu nýrrar hjúkrunarálmu við suðurenda Sunnuhlíðar. Eftir mikla undirbúningsvinnu og fjársöfnun var hafist handa árið 2000 um byggingarframkvæmdir og var nýja álman tekin í notkun um áramótin 2001-2002 með 20 hjúkrunarrýmum í einbýli á efri hæð og 7 rýmum á neðri hæð, þar af 4 til skammtímavistunar. Studdi Rótarýklúbbur Kópavogs þessar nýju byggingaframkvæmdir eftir mætti eins og gerðist við stofnun og byggingu Sunnuhlíðar.
Á árinu 2010 eru heimildir til reksturs 69 langlegurýma auk 4 til skammtíma innlagna eða samtals 73 rýma.
Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð var formlega opnað á uppstigningardag hinn 20. maí árið 1982. Var öllum Kópavogsbúm svo og öðrum velunnurum boðið till veglegrar hátíðar sem þá var efnt til í hinni nýju hjúkrunarheimilisbyggingu og þiggja veitingar sem voru kaffi, gos og kleinur. Sáu að mestu um þær veitingar konur úr Kvenfélagi Kópavogs og Soroptimistaklúbbi Kópavogs en veitingastjóri var Rótarýfélagi okkar Sveinbjörn Pétursson. Á fjórða þúsund manns þáði boðið og naut dagskrár með ræðuhöldum, kórar barna og fullorðinna sungu, leikið var á trompet og lúðrasveit lék við aðalinnganginn en málverkasýning hékk á veggjum. Mun þetta hafa verið fjölmennasta vígsluhátíð sem þá hafði farið fram í Kópavogi.
Frá því að hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð tók til starfa og fram á árið 2010 hafa um 900 einstaklingar dvalið í hjúkrunarheimilinu, en innskráningar eru nær 2000. Hátt á 5. hundrað hafa dvalið í lengri eða skemmri tíma í Dagdvöl Sunnuhlíðar og nær 400 manns í þeim 108 þjónustuíbúðum sem samtökin hafa reist .
Aðildarfélögin að Sunnuhlíð eru nú 11. Fjölgað hefur um 2 frá stofnun, en Lionsklúbburinn Ýr, Félag eldri borgara í Kópavogi og Rótarýklúbburinn Borgir hafa gerst aðilar að Sunnuhlíðarsamtökunum en J.C. Kópavogur sem var stofnaðili hefur hætt aðild sinni.
Í aðalstjórn Sunnuhlíðar hafa setið frá upphafi fyrir hönd Rótarýklúbbs Kópavogs þeir Páll Bjarnason 1979-1999 og Eiríkur Líndal frá 1999. Núverandi framkvæmdastjóri er Rótarýfélagi okkar Jóhann Árnason. Formaður stjórnar og fulltrúaráðs Sunnuhlíðarsamtakanna fyrstu 20 árin var félagi okkar Ásgeir Jóhannesson en núverandi formaður er fyrrverandi Rótarýfélagi okkar Guðjón Magnússon, nú félagi í Rótarýklúbbnum Borgum.