Fyrsti Rótaractklúbbur landsins hefur séð dagsins ljós
Þriðjudaginn 20. janúar sl. var fyrsti Rótaractklúbburinn á Íslandi stofnaður. Stofnstaður hins nýja klúbbs, sem heitir Rótaractklúbburinn Geysir, var í Molanum í Kópavogi, en fyrsti forseti klúbbsins er Ingvi Hrannar Ómarsson frá Sauðárkróki. Rótaract eru alþjóðleg félags- og góðgerðarsamtök fyrir ungt folk á aldrinum 18 til 30 ára sem vill láta gott af sér leiða í samfélaginu, en einkunnarorð Rótaract eru einmitt: ,,Þjónusta ofar eigin hag."
Fundir Rótaractklúbbsins Geysis verða annanhvorn þriðjudag í Molanum (nýtt ungmennahús beint á móti Salnum í Kópavogi). Fólk á aldrinum 18 - 30 ára, sem hefur áhuga á að fjölga faglegum möguleikum sínum, þjóna samfélaginu, innanlands og utan, þroska leiðtogahæfileika sína, kynnast ungu fólki og síðast en ekki síst, að láta gott af sér leiða, er velkomið á fundi klúbbsins sem hefjast kl. 17:00 stundvíslega. Netfang Rótaract á Íslandi er: rotaract@rotary.is Rótarýfélagar eru vinsamlegast beðnir að láta vita um klúbbstofnunina til að stuðla að hraðri og öruggri fjölgun félaga í honum.
Ellen Ingvadóttir, umdæmisstjóri, vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem að undirbúningi og stofnun Rótaractklúbbsins Geysis komu, þ.e. frumkvöðlunum og fulltrúum umdæmisins. Móðurklúbbar Geysis eru tveir, Rkl. Borgir, Kópavogi, og Rkl. Görðum, Garðabæ. Framlag þeirra er ómetanlegt og styrkir undirstöður Rótarý á Íslandi.