Brunavarnir og öryggismál
Inga Hersteinsdóttir
Rótarýfundurin 27. febrúar var í umsjón Starfsþjónustunefndar en formaður hennar er Kristófer Þorleifsson. Inga Hersteinsdóttir flutti starfsgreinarerindi á fundinum. Þriggja mínútna erindi flutti Guðmundur B. Lýðsson.
Í þriggja mínútna erindi sínu sagði Guðmundur B. Lýðsson að hann hefði aldrei flutt starfsgreinarerindi, en ef það hefði verið haldið hefði hann rætt um kvikmyndagerð en hann hefur gert margar heimildarmyndir. Nú hefur verið nokkurt hlé á kvikmyndagerð hans en ný mynd er í farvatninu sem hann kallar Rafstöð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og lofaði hann að bjóða Rótaryfélögum í bíó hvort sem það yrði í þessum sal eða annars staðar. Erindi Guðmundar sem var mjög ríflega þrjár mínútur snérist um kvikmyndirnar þó að flestir viti að þær hafa ekki verið aðalstarf Guðmundar um ævina.
Fundurinn var í umsjón Starfsþjónustunefndar og kynnti formaðurinn Kristófer Þorleifsson fyrirlesarann Ingu Hersteinsdóttir sem flutti sitt starfsgreinarerindi. Inga var stúdent frá MR 1967 og lauk BSc og MSc gráðum frá Dundee University í Skotlandi. Hún á tvö börn.
Inga sagði að hún hefði ekki unnið verkfræðistörf alla ævi því að hún hefði fylgt manni sínum sem vann í sendiráðum erlendis og bjuggu þau þá m.a. í Genf og New York. Prófverkefni Ingu í Mastersnámi tengdist brúarhönnun, en verkefni hennar hafa síðar færst yfir í öryggismál bæði umferðaröryggi og brunavarnir. Fyrirlesturinn snérist fyrst og fremst um brunavarnir og hönnun þeirra og þar kom fram að í mjög mörgum stórslysum af völdum bruna eru það oft mjög einföld atriði sem valda miklu manntjóni svo sem lélegar merkingar og skertur aðgangur að þeim flóttaleiðum sem eru fyrir hendi. Þess vegna er lögð mikil áhersla á að skoða hvern einasta bruna sem mögulegt er að læra af til að bæta vinnubrögðin.