Fréttir

10.1.2018

Starfsgreinaerindi Páls Á Jónssonar - Innviðir fjarskipta

Páll Árni Jónsson

Rótarýfundurinn 9. janúar var í umsjón Starfsþjónustunefndar en formaður hennar er Kristófer Þorleifsson. Páll Á Jónsson flutti starfsgreinaerindi sitt. 3ja mínútna erindi var í höndum Jóns Höskuldssonar.

Í þriggja mínútna erindi sínu sagði Jón Höskuldsson frá veru sinni í Rótarýklúbbi Stykkishólms og aðild sinni að stofnun klúbbsins í Ólafsvík. Jón og Kristófer voru viðstaddir 40 ára afmæli þess klúbbs rétt áður en hann var lagður niður.

Fundurinn var í umsjón Starfsþjónustunefndar þar sem Kristófer Þorleifsson er formaður og kynnti hann Pál Árna Jónsson sem flutti sitt starfsgreinaerindi. Páll sagðist hafa unnið við einhvers konar fjarskipti allan sinn starfsferil og endað hann á að vera framkvæmdastjóri Mílu í 8 ár. Verkefni Mílu er að byggja upp og reka fjarskiptakerfi sem öll fjarskiptafyrirtæki eiga að geta fengið aðgang að.

Páll sagði að í stað þess að tala um sitt eigið starf ætlaði hann að tala almennt um innviði fjarskiptakerfanna. Undanfarið hefur verið talað um innviði á hinum ýmsu sviðum samfélagsins svo sem í heilbrigðiskerfi, menntakerfi, vegakerfi og raforkukerfi. Innviðir fjarskiptanna eru hinsvegar ekki eins sýnilegir almenningi, en Páll taldi að þar væri víða þörf á framkvæmdum sem tæki svo langan tíma að borga sig að einkafyrirtæki sem væru á fjarskiptamarkaði hefðu enga möguleika á að sinna slíkum verkum, nema með styrk frá ríkinu.