Fréttir

20.12.2017

Jólafundurinn: Tveir Paul Harris félagar og nýr heiðursfélagi

Orri Páll Ormarsson

Árlegur jólafundur klúbbsins var haldinn 19. desember í Sal Cafe Atlanta á 1. hæð. Boðið var upp á jólahlaðborð að hætti kokksins okkar. Var vel mætt, maturinn frábær og öll þjónusta til mikillar fyrirmyndar.

Þeir Guðmundur Jens Þorvarðarson og Bergþór Halldórsson voru sæmdir Paul Harris orðunni og Jón Höskuldsson var tilnefndur heiðursfélagi klúbbsins. Sigfinnur Þorleifsson flutti jólahugvekju.

Erindi dagsins flutti Orri Páll Ormarsson og ræddi hann um bók sína um Gunnar Birgisson, fv. bæjarstjóra í Kópavogi.

Forseti tilkynnti að stjórn klúbbsins hefði ákveðið að sæma tvo félaga í klúbbnum Guðmund Jens Þorvarðarson og Bergþór Halldórsson Poul Harris-orðunni en hún er ein af æðstu orðum sem Rótaryhreyfingin færir sínum félögum. 17 aðrir félagar í klúbbnum hafa fengið þessa orðu.

Jafnframt tilkynnti forseti að stjórnin hefði ákveðið að gera einn af eldri félögum í klúbbnum Jón Breiðfjörð Höskuldsson að Heiðursfélaga Rótaryklúbbs Kópavogs og er hann sá áttundi af núverandi félögum sem hlýtur þessa nafnbót. Jón hefur verið félagi í Rótaryklúbbi Kópavogs frá 1980 en áður hafði hann verið félagi í Rótaryklúbbi Stykkishólms og í Rótaryklúbbi Ólafsvíkur.

Allir þessir félagar fengu skjöl til staðfestingar á þessum viðurkenningum.

Að þessu loknu sleit forseti formlegum fundi og gaf Karli Magnúsi Kristjánssyni formanni skemmtinefndar orðið.

Hófst þá borðhald og undir borðhaldinu flutti Sr. Sigfinnur Þorleifsson jólahugvekju og Orri Páll Ormarsson las valda kafla úr nýútkominni bók sinni Gunnar Birgisson - Ævisaga, sem er ævisaga fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs.



Bergþór Halldórsson (t.v.) og Guðmundur Jens Þorvarðarson (í miðju) voru sæmdir Paul Harris orðunni. Forseti klúbbsins, Jón Emilsson er lengst til hægri.






Jón Breiðfjörð Höskuldsson, nýr heiðursfélagi klúbbsins, stendur hér með viðurkenningarskjal því til staðfestingar.