Fréttir

2.12.2017

Barnaspítali Hringsins

Sonja Egilsdóttir og Sigrún S. Hafstein

Rótarýfundurinn 5. desember var í umsjón Þjóðmálanefndar en formaður hennar er Ólafur Tómasson. Sonja Egilsdóttir formaður Hringsins ásamt Sigrúnu S. Hafstein mættu á fundinn og héldu erindi um starfsemi Hringsins í nútíð og fortíð með sérstakri áherslu á Barnaspítalanum.  Þriggja mínútna erindi flutti Jón Ögmundsson.

Þriggja mínútna erindi flutti Jón Ögmundsson en hann mætti með fjórar nýútkomnar bækur sem hann mælti með en þær voru eftir Ragnar Jónasson, Arnald Indriðason, Ian Mac Ewan og Jón Kalman Stefánsson. 

Páll Jónsson kynnti fyrirlesarann Sonju Egilsdóttir og fór nokkrum orðum um starfsemi Hringsins áður en hann gaf Sonju orðið.

Sonja fór yfir sögu og starfsemi Hringsins en félagið var stofnað árið 1904.

Á fyrstu áratugum í sögu félagsins var kröftum þess aðallega beint að endurhæfingu berklasjúklinga enda hafði helsti hvatamaður og síðar stjórnandi félagsins í tæp 40 ár Kristín Vídalín verið berklasjúklingur. Á þeim tíma reistu þær m.a. Hressingarhælið í Kópavogi og fjármögnuðu það að hluta með rekstri búskapar á Kópavogsjörðinni. Á stríðsárunum gáfu þær ríkinu húsið með öllum innanstokksmunum.

Árið 1942 var á fundi í félaginu samþykkt breytt stefna og að félagið beitti sér fyrir málefnum barna og að koma upp barnaspítala og sama ár var hannað merkið sem síðan hefur verið auðkenni Hringsins.  Barnadeild var opnuð á Landsspítala 1957, Barnaspítali Hringsins var tekinn í notkun 1965 og Geðdeild Barnaspítalans 1971. Nýtt hús Barnaspítalans var svo tekið í notkun árið 2003.

Frá því að nýja hús Barnaspítalans var tilbúið hefur Hringurinn fyrst og fremst einbeitt sér að því að safna fé í Barnaspítalasjóð Hringsins en úr þeim sjóði hefur Hringurinn gefið milljarð króna síðastliðin 15 ár. Barnaspítalinn hefur haft þar forgang en Hringurinn hefur samt styrkt fjölda annarra verkefna tengd börnum.