Fréttir

6.7.2017

Stjórnarskipti í klúbbnum

Á Rótarýfundinum 4. júlí fóru fram stjórnarskipti. Var fundurinn haldinn á veitingahúsinu Nauthól í Nauthólsvík um kvöldið og voru makar félaga fjölmennir á fundinum. Jón Emilsson er forseti klúbbsins starfsárið 2017-2018. Aðrir í stjórn eru Friðbert Pálsson varaforseti, Sigurjón Sigurðsson ritari, Ingólfur Antonsson gjaldkeri og Jóhann Þórður Guðmundsson stallari.

Forseti brá ekki út af venju sinni og fór með ljóð í upphafi fundar og í tilefni af því að þetta var hans síðasti fundur sem forseti þá flutti hann kvæði úr óbirtu handriti eftir sjálfan sig. Þetta kvæði fékk góðar undirtektir meðal fundarmanna en forseti sagði að þetta handrit myndi halda áfram að vera óbirt um ókomin ár.

Forseti rakti síðan helstu atburði liðins starfsárs sem var viðburðarríkt vegna þess að umdæmisstjóri Rótary á Íslandi þetta árið var úr okkar klúbbi. Þetta hafði í för með sér að klúbburinn sá um umdæmisþingið sem haldið var í Kópavogi og tókst mjög vel. Hann þakkaði síðan samstarfsmönnum í stjórn og öllum félögum í klúbbnum fyrir samstarfið.

Að lokum kallaði hann upp þá sem kjörnir voru í næstu stjórn, setti rótarykeðjuna á Jón Emilsson sem mun verða forseti næsta starfsár. Aðrir í stjórn verða Friðbert Pálsson varaforseti, Sigurjón Sigurðsson ritari, Ingólfur Antonsson gjaldkeri og Jóhann Þórður Guðmundsson stallari.

Frá vinstri: Friðbert, Jóhann Þórður, Sigurjón, Jón og Sigfinnur. Ingólfur var ekki á fundinum.

Næstur tók til máls Jón Emilsson nýr forseti og sagði nokkuð frá því sem hann hefði verið að vinna að undanfarið til undirbúnings næsta starfsárs en það var m.a. fundaráætlun og skipun manna í nefndir sem hann sagði að sent yrði til félaga á næstu dögum. Að lokum var farið með fjórprófið og nýr forseti sleit fundi.

Þá var borinn fram matur en að loknum aðalrétti sagði Guðmundur Jens Þorvarðarson fráfarandi umdæmisstjóri frá starfi sínu síðastliðið eitt og hálft ár. Fyrst við undirbúning og síðan sem umdæmisstjóri og þó að starfið hefði verið mjög gefandi þá hefði það tekið á bæði sig og Svövu konu sína. Fyrst voru ferðalög til útlanda á ráðstefnur og fundi og síðan heimsóknir til allra klúbba á landinu og sagði Guðmundur frá þeim ferðum í máli og myndum.

Síðan fór Sigurjón Sigurðsson með gamanmál og sagði frá sérstæðum persónuleikum sem bjuggu í nágrenni við hann í æsku en þar á meðal voru Hannes á Horninu og Gísli forstjóri á Elliheimilinu Grund.

Þá var borinn fram eftirréttur og kaffi og nutu menn matarins.