Fréttir

23.6.2017

Brexit út frá sjónarmiðum Íslands

Gunnar Snorri Gunnarsson

Rótarýfundurinn 20. júní var í umsjón Alþjóðanefndar en formaður hennar er Sævar Geirsson. Fyrirlesari á fundinum var Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra sem er aðalsamningamaður okkar við Breta. Hann ræddi um Brexit út frá sjónarmiði Íslands.


Forseti fór með ljóðið Út og heim eftir Björn Sigurbjörnsson.

Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar og kynnti Jón Sigurðsson fyrirlesarann Gunnar Snorra Gunnarsson sendiherra. Gunnar lauk M.A prófi í ensku og heimspeki frá Edinborgarháskóla og hefur auk þess menntun í tónlist. Hann var sendiherra í Genf, Brussel og Peking og var ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu í fjögur ár. Hann er nú aðalsamningamaður Íslands vegna Brexit.

Gunnar sagði að það væri mikið í lagt að kalla sig samningamann án þess að búið væri að ákveða samningaviðræður. Hann sagði mikla togstreitu vera um Brexit. Öll okkar samskipti við breta eru á grundvelli EES svo við verðum að semja um öll atriði að nýju hvort sem einhver ágreiningur er eða ekki.  Bretland er okkar mikilvægasta viðskiptaland þannig að það skiptir miklu máli hvaða kjör nást í væntanlegum samningum. Bretar eiga erfiðara en við íslendingar með að sætta sig við verðhækkanir þannig að markaður fyrir okkar vörur í Bretlandi verður stöðugt erfiðari vegna gengisbreytinga burtséð frá Brexit.

Samningar Breta við Evrópusambandið þurfa að vera komnir vel á veg áður en raunhæft er að samningar Íslands og Bretlands fari af stað en íslendingar og norðmenn munu fá að fylgjast mjög náið með því sem gerist í þeim samningaviðræðumsem verða mjög erfiðar. Sú lausn að Bretland fengi svipaða stöðu og Ísland og Noregur gagnvart Evrópusambandinu hefur verið meira inni í umræðunni eftir kosningarnar í Bretlandi en áður.

Þær staðreyndir að London er langstærsta miðstöð fjármála í Evrópu og bretar borga næstmest allra þjóða af kostnaði við rekstur Evrópusambandsins sýna að það verða miklir fjármunir i húfi í viðræðunum. Annað erfitt mál sem þarf að leysa er að um þrjár milljónir breta aðallega ellilífeyrisþegar búa í Suður Evrópu og um milljón evrópubúa vinna í Bretlandi aðallega ungt fólk.

Að lokum benti Gunnar á hvað fundartíminn fyrir þennan fund okkar hefði verið vel valinn, daginn eftir fyrsta fund milli breta og Evrópusambandsins um Brexit og daginn fyrir stefnuræðu nýrrar stjórnar í Bretlandi.