Fréttir

29.6.2017

Frá baðstofum til Þjóðleikhúss

Sveinn Einarsson

Rótarýfundurinn 27. júní var í umsjón Menningarmálanefndar en formaður hennar er Guðný Helgadóttir. Fyrirlesari á fundinum var Sveinn Einarsson fyrrverandi þjóðleikhússtjóri og nefndi hann erindið: Frá baðstofum til Þjóðleikhúss. Helgi Sigurðsson flutti 3ja mínútna erindi.


Sá sem átti að halda þriggja mínútna erindi forfallaðist og leitaði fundarstjóri eftir sjálfboðaliðum í verkið. Helgi Sigurðsson bauð sig fram og samdi hann erindi sitt á leið í pontu og fjallaði það um fals. Hann sagði fals í alls konar samskiptum milli manna miklu algengara en en menn gerðu sér grein fyrir. Á bakvið fals liggur oftast eigin metnaður og er greinilegt að fals er mun algengara meðal karla en kvenna. Í fyrirtækjarekstri nefndi hann að lyfjafyrirtæki gerðu oft ráð fyrir að þurfa að greiða skaðabætur vegna fullyrðinga sem ekki ættu sér stoð í raunveruleikanum.

Fundurinn var á vegun Menningarmálanefndar og kynnti formaður hennar Guðný Helgadóttir fyrirlesarann Svein Einarsson fyrrverandi þjóðleikhússtjóra. Sveinn stundaði nám í leikhúsfræðum í Stokkhólmi, París, Oxford og Kaupmannahöfn og varð doktor frá HÍ 2006. Sveinn hefur komið víða við í störfum sínum en hann var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur og þjóðleikhússtjóri, áratug á hvorum stað auk margra annarra starfa. Eftir Svein er til mikill fjöldi ritverka frumsaminna og þýddra..

Sveinn nefndi erindi sitt sem fjallaði um íslenska leiklist "Frá baðstofum til Þjóðleikhúss". Hann hóf erindi sitt á því að lýsa yfir ánægju með Rótary en hann hefur verið rótaryfélagi í rúm 40 ár. Hann hampaði þykkri bók sem var síðasta bindið í ritverki hans um íslenska leiklist og nær hún yfir tímabilið 1920-1960 en þar sagði hann aðra verða að taka við því hann hefði verið of mikill gerandi á því sviði á árunum þar á eftir.

Sveinn sagði að hvergi í heiminum væri jafnmikill fjöldi áhorfenda á leiksýningar og hérlendis miðað við höfðatölu. hann benti á að þó við hrósuðum okkur með réttu af því að vera bókmenntaþjóð þá væri komið í ljós að margar aðrar listgreinar sem menn hafa talið nýjar ættu sér talsvert langa sögu hérlendis og það ætti við um myndlist, tónlist og leiklist. Allar þessar listgreinar sameinast síðan í leikhúsverkum nútímans.  Mikla umfjöllun í bók Sveins fékk það sem hann kallaði Stóra viðburðinn en það var bygging Þjóðleikhússins og sú umræða sem menn áttu áður um framkvæmdina og hvernig það var rökstutt að við þyrftum á Þjóðleikhúsi að halda.

Íslensk leiklist er upprunnin úr baðstofumenningu þar sem einn maður flutti eitthvað efni meðan aðrir unnu. Síðar þegar þéttbýli fór að myndast tók þessi skemmtun á sig nýtt form og eru heimildir um að leikið hafi verið á 50 stöðum á Íslandi í lok 19. aldar.