Grunnskólar fyrr og nú
Skafti Þ. Halldórsson
Rótarýfundurinn 6. júní var í umsjón Ungmennanefndar en formaður hennar er Guðmundur Harðarson. Fyrirlesari á fundinum var Skafti Þ. Halldórsson frv. kennari og deildarstjóri við Álfhólsskóla í Kópavogi og nefndi hann erindi sitt Grunnskólar fyrr og nú. Þriggja mínútna erindi flutti Benjamín Magnússon.
Í þriggja mínútna erindi sínu sagði Benjamín fyrst frá ferð sem hann fór til Bretlands þá ungur arkitekt til að kynna sér byggðaþróun og uppbyggingu borga og fór til 13 borga, sem ekki voru búnar að ná sér eftir eyðileggingar stríðsins. Meðal annars kom hann til Glasgow sem þá var ljótasta borg sem hann hafði séð en þar eins og í mörgum öðrum borgum varð mikil breyting sem olli því að verulega dró úr fólksflutningunum til London sem voru orðnir vandamál.
Til að leysa svipuð vandamál á Íslandi í dag lagði hann til að Tækniskólinn sem enginn vilji hvort sem er vita af yrði fluttur til Akureyrar. Það myndi hafa miklu meiri áhrif en að flytja litla vinnustaði eins og gert hafi verið.
Fundurinn var í umsjón Ungmennanefndar og kynnti Björgvin Skafti Vilhjálmsson fyrirlesarann Skafta Þ. Halldórsson sem var kennari og deildarstjóri við Álfhólsskóla í Kópavogi. Skafti er fæddur 1951 og er með BA próf í íslensku og bókmenntum og hefur á ferli sínum kennt við fjóra grunnskóla í Kópavogi síðast í Álfhólsskóla.
Skafti nefndi erindi sitt: Grunnskólar fyrr og nú og setti fram spurninguna hvort grunnskólinn væri á réttri leið. Hann flutti gífurlega viðamikið erindi þar sem þeirri spurningu var svarað játandi þó að kerfið í dag væri langt frá því að vera gallalaust. Sérstaklega benti hann á að í gamla kerfinu, sem flestir í klúbbnum voru í á sínum tíma var skipt í bekki eftir getu en þar hefðu mælikvarðarnir á getu ekki verið mjög góðir og margir unglingar sem lentu í tossabekk hefðu eytt tíma sínum til lítils gagns í skólanum. Í dag væri lögð mikil áhersla á einstaklingsmiðað nám og reynt eftir megni að finna styrkleika hvers einasta nemanda. Hann nefndi atgervisflótta úr kennarastéttinni þar sem kennarastéttin væri ekki hátt skrifuð og sagði að kennara skorti oft þekkingu til að geta veitt afburðanemendum þá örvun sem þeir þyrftu á að halda sérstaklega í raungreinum. Skafti gerði lítið úr þeim afrekum sem komu frá ráðuneytinu sem átti að vera með stefnumótun en virðist í raun einungis hugsa um hvernig lækka megi kostnað við skólakerfið.