Fréttir

31.5.2017

Hryðjuverk og hryðjuverkaógn

Snorri Magnússon

Rótarýfundurinn 30. maí var í umsjón Alþjóðanefndar og kynnti Jón Sigurðsson fyrirlesarann Snorra Magnússon formann Landssambands lögreglumanna. 2 nýir félagar voru teknir í klúbbinn, Inga Hersteinsdóttir og Páll Á Jónsson (sjá sérstaka frétt).

Í upphafi fundar flutti forseti ljóð eftir Ingunni Snædal.

Tveir nýjir félagar voru teknir inn í klúbbinn sem búa báðir á Seltjarnarnesi:

Inga Hersteinsdóttir  f. 1947.  M.Sc. í byggingaverkfræði í Dundee , Skotlandi. Hún vinnur nú við brunahönnun hjá Lotu ehf.

Páll Á Jónsson f. 1950.   Tæknifræðingur frá Odense Teknikum. Vann lengst hjá Símanum og síðar sem framkvæmdastjóri Mílu.    

Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar og kynnti Jón Sigurðsson fyrirlesarann Snorra Magnússon formann Landssambands lögreglumanna. Snorri er fæddur 1964 og varð formaður Landssambandsins 2008. Snorri hefur starfað bæði í sérsveit lögreglunnar og í fíkniefnadeildinni.

Fyrirlestur Snorra var um hryðjuverk eða hryðjuverkaógn þ.e. terrorisma.  Hann skilgreindi hugtakið þannig að það væri: ofbeldisverk eða hótun um ofbeldisverk, sem beindist gegn almennm borgurum í því skyni að ná fram trúarlegum, pólitískum eða öðrum hugsjónalegum markmiðum og skapa upplausnarástand. Nú væru Talibanar, Al Queda, ISIS og Boko Haram þekktustu hryðjuverkasamtökin. Þau síðastnefndu langafkastamest í manndrápum þó að sú staðreynd komi ekki fram í umfjöllun fjölmiðla. Hryðjuverkin á Vesturlöndum væru hins vegar mjög oft framin af mönnum sem væru einfarar og stundum væri ekki greinileg tenging við samtökin sem lýstu sig ábyrg fyrir glæpunum.

Snorri sagði að orðrómur væri um að menn sem hefðu framið hryðjuverk væru sendir til Íslands eða annarra álíka friðsælla landa á meðan mesta umræðan um verknaðinn gengur yfir og þá sagði hann engan vafa leika á því að glæpagengi hefðu náð fótfestu hérlendis. Hann gagnrýndi mjög hvernig búið væri að lögreglunni og að þar væri stöðugt verið að fækka mannskap á meðan svona ógn færi vaxandi og ferðamenn í tugþúsundatali flykktist út á þjóðvegina. Hann sagði að svipaða sögu væri hægt að segja á hinum Norðurlöndunum og nefndi að norðmenn hefðu ekki útfært eitt einasta atriði af mjög vönduðum tillögum um varnir gegn hryðjuverkum sem unnar voru eftir hryðjuverkin í Útey. Þá sagðist hann hafa séð á Norðurlöndunum að utanaðkomandi verktakar væru farnir að sinna störfum sem hér væru í höndum Víkingasveitarinnar.