Eldhugi Kópavogs árið 2017
Hallfríður Ólafsdóttir
Rótarýfundurinn 4. apríl var í umsjón Viðurkenningarnefndar sem sá um að tilnefna Eldhuga Kópavogs 2017 og kynnti formaður nefndarinnar Karl Kristjánsson val nefndarinnar og Hallfríði Ólafsdóttur sem er Eldhugi Kópavogs 2017.. Þriggja mínútna erindi flutti Sigurður Jónsson.
Forseti flutti örstuta hendingu úr Hávamálum.
Efni fundarins var að tilnefna Eldhuga Kópavogs árið 2017, en þetta var í 21. skiptið sem klúbburinn veitir þessa viðurkenningu. Val á eldhuga Kópavogs er í höndum viðurkenningarnefndar, sem fylgist með framúrskalandi frumkvöðlastarfi einstaklinga í Kópavogi og gerir tillögu til stjórnar um, hver skuli hljóta viðurkenninguna.
Nefndina skipa Karl M. Kristjánsson formaður nefndarinnar, Ásgeir Jóhannesson og Guðmundur Björn Lýðsson og var hún sammála um að Hallfríður Ólafsdóttir, flautuleikari, sem er borin og barnfædd í Kópavogi, skuli tilnefnd eldhuginn árið 2017. Hlýtur hún viðurkenninguna fyrir frumkvæði að tónlistaruppeldi æskufólks með verkefninu um músíkölsku músina Maxímús Músíkús.
Sigfinnur Þorleifsson, forseti klúbbsins, stendur hér með Eldhuga Kópavogs 2017
Hallfríður þakkaði fyrir sig og tók sérstaklega fram hvað henni þætti vænt um titilinn Eldhugi sem henni þætti einstaklega fallegur. Orðið fífldirfska var henni einnig ofarlega í huga þegar hún hugsaði til baka til byrjunar ævintýrisins með Maximús Músikus. Strax í upphafi skrifaði hún Vladimir Ashkenazy og bað um að hann yrði verndari verkefnisins sem var samþykkt á frekari umræðu.
Fyrsta hugsunin í verkefninu var að sýna lífið í sinfóníuhljómsveitinni með augum hins litla og síðan kom skemmtisagan sem í var falin fræðsla.
Nú hafa fjöldi aðila komið að verkefninu sem styrktaraðilar og yfir 100 tónleikar hafa verið haldnir um allan heim. Hallfríður er nú á leið til Los Angeles þar sem hún verður viðstödd flutning Los Angeles Philharmonic Orchestra sem byggir á nýjustu sögunni um Maximus Músikus.
Í lok fundarins var tekin mynd af Eldhuganum ásamt foreldrum sínum, Ólafi Tómassyni og Stefaníu Maríu Pétursdóttur, en Ólafur hefur verið lengst allra félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs. Lengst til vinstri er Karl M. Kristjánsson, formaður viðurkenningarnefndar og forseti lengst til hægri.
Um eldhuga Kópavogs 2017:
Hallfríður Ólafsdóttir er 1. flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur verið fastráðin við hljómsveitina frá janúar 1997 og verið leiðandi flautuleikari frá 1999. Hallfríður er einnig kennari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík og flautuleikari kammerhópsins Camerarctica.
Hallfríður lauk bæði einleikaraprófi og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1988. Hún fór þá utan til náms og var fyrst við nám hjá Trevor Wye og Kate Hill í Royal Northern College of Music í Manchester, og lauk þaðan Postgraduate Diploma eftir einn vetur. Hún komst þá að hjá William Bennett við Royal Academy of Music í Lundúnum, ein þriggja nemenda úr um hundrað manna hópi, og hlaut eftir tveggja ára nám Diploma of Advanced Studies, auk þess að hljóta styrk frá skólanum og önnur verðlaun í keppni tréblástursnemenda.
Hallfríður hefur ásamt starfi sínu hjá Sinfóníuhljómsveitinni leikið einleikskonserta, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og lagt stund á kammertónlist, fyrst og fremst með Camerarctica, auk þess að sinna uppfræðslu verðandi flautuleikara við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún hefur hljóðritað og gefið út á geisladiskum flautukvartetta eftir W.A. Mozart og ýmis íslensk kammerverk.
Árið 2002 var Hallfríði veitt heiðursnafnbótin Associate of the Royal Academy of Music (ARAM) sem veitist þeim fyrrum nemendum RAM sem notið hafa velgengni í starfi.
Árið 2003 hlaut Hallfríður titilinn Bæjarlistamaður Garðabæjar og hlaut Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu 17. júní 2014 fyrir frumkvæði að tónlistaruppeldi æskufólks með verkefninu um músíkölsku músina Maxímús Músíkús.
Eins og fyrr segir er Hallfríður höfundur metsölubókanna Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina sem gefin var út í mars 2008, Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann sem kom út í apríl 2010, Maxímús Músíkús bjargar ballettinum frá maí 2012 og Maxímús Músíkús kætist í kór sem kom út í apríl 2014. Bækurnar innihalda myndskreyttar sögur fyrir yngstu börnin um músíkölsku músina Maxímús Músíkús sem kynnist tónlistinni, hljóðfærunum og hljóðfæraleikurum sinfóníuhljómsveitarinnar, börnum í tónlistarskóla, fólki sem dansar við tónlist og kórsöngvurum. Um myndskreytingar bókanna sér Þórarinn Már Baldursson, víóluleikari, sem einnig starfar við Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Með bókunum um Maxa fylgir geisladiskur með upplestri sögunnar með öllum þeim tónum og hljóðum sem músin heyrir, sem og upptökum á tónverkunum sem ævintýrið fjallar um. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur hljóðritað alla tónlistina og hefur frá upphafi haldið útgáfutónleika og marga leikskólatónleika byggða á sögunum, alltaf fyrir fyrir fullu húsi.
Hallfríður og Þórarinn hlutu Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar ársins 2008 fyrir Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina.
Maxímús Músíkús hefur nú þegar gert víðreist. Bækurnar um hann hafa komið út í Þýskalandi, Færeyjum, Kóreu, Brasilíu, Kína, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi auk þess að koma út á ensku í rafbók.
Tónleikadagskrárnar sem byggðar eru á bókunum hafa verið fluttar í New York, Berlín, London, Winnipeg og Stokkhólmi, í Amsterdam, Rotterdam og fleiri borgum í Hollandi, nokkrum borgum í Þýskalandi og Austurríki, Þórshöfn í Færeyjum, og í fjórum borgum Ástralíu; Melbourne, Queensland, Hobart og Perth. Einnig var Maxi valinn til að skemmta börnum á árlegri hátíð í Kennedy Center í Washington sem var tileinkuð Norðurlöndunum árið 2013 og kallaðist Nordic Cool. Listræn stjórn hátíðarinnar kaus að bjóða Sinfóníuhljómsveit Íslands til að ferðast yfir Atlantshafið og flytja dagskrána.
Los Angeles Philharmonic Orchestra pantaði nýja sögu, Maximus Musicus Explores Iceland (Maxímús Músíkús fer á fjöll) fyrir tónlistarhátíðina „Reykjavík“ sem haldin er í apríl 2017.