Fréttir

29.3.2017

Fiskeldi

Einar Guðfinnsson

Rótarýfundurinn 28. mars var í umsjón Þjóðmálanefndar en formaður hennar er Ólafur Wernersson. Fyrirlesari á fundinum var Einar Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva og ræddi hann um fiskeldi. Þriggja mínútna erindi flutti Ólafur Tómasson.

Forseti flutti stutt ljóð eftir Þórð Helgason fyrrverandi félaga í klúbbnum.

Þriggja mínútna erindi flutti Ólafur Tómasson. Hann hóf mál sitt á að vekja athygli á skóm sínum sem voru af gerðinni Níke en það vörumerki heitir eftir grísku Sigurgyðjunni Níke. Annars fjallaði erindið um verðlaunaafhendingu í París árið 1993 þar sem Pósturinn á Íslandi fékk verðlaun fyrir fallegasta frímerkið sem gefið var út árið áður. Ólafur og Albert Guðmundsson sendiherra mættu þar og tóku við verðlaunum sem voru styttur af áðurnefndri Sigurgyðju og Ólafur átti í mesta basli með að koma þeim óbrotnum heim.

Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar og kynnti formaður hennar Ólafur Wernersson fyrirlesarann Einar K. Guðfinnsson sem er formaður Landssambands Fiskeldisstöðva en vegna fyrri starfa Einars taldi Ólafur ástæðulaust að kynna hann frekar.

Einar byrjaði erindi sitt á að ræða um þá gagnrýni sem hefur verið á fiskeldi á Íslandi og benti á að allar atvinnugreinar hérlendis væru gagnrýndar mjög óvægilega þegar þær fara að vaxa. Staðan væri hins vegar núna ekki sú að spurningin vari hvort farið yrði út í fiskeldi í sjó heldur hvernig staðið yrði að málum. Hann taldi að eldi í sjó ætti mikla framtíð fyrir sér hérlendis og myndi skila mun meiri arði en landeldi.

Árið 2004 var ákveðið á Alþingi að loka stærstum hluta strandlengjunnar fyrir fiskeldi sem aðallega yrði á Vestfjörðum og á Austfjörðum.  Helsta fyrirmynd íslendinga í sjóeldi er sótt til Noregs en miklar sleppingar þar fyrir nokkrum árum ollu því að starfshættir þar voru bættir verulega og reglugerðir hertar.