Fréttir

24.3.2017

Talað við tækin - hvað þarf til?

Eiríkur Rögnvaldsson

Rótarýfundurinn 21. mars var á vegum menningarmálanefndar, en formaður hennar er Guðný Helgadóttir. Fyrirlesari var Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands. Erindi hans nefndist "Talað við tækin - hvað þarf til?" Þriggja mínútna erindi flutti Ólafur Wernersson.

Forseti flutti tvö erindi úr lengri ljóðum annars vegar eftir Jónas Hallgrímsson og hins vegar eftir Einar Benediktsson.

Þriggja mínútna erindi flutti Ólafur Wernersson. Hann sagðist hafa barist við offitu í rúm 40 ár, en lét nú í október verða af því að grípa til aðgerða og valdi þá róttækustu og dýrustu leiðina sem völ var á. Hann lagðist inn á spítala í Keflavík þar sem meiri hluti magans var fjarlægður og lýsti Ólafur því í máli og myndum. Nú væri hann 52 kílóum léttari en viðurkenndi að hann fyndi fyrir svolítilli sorgartilfinningu þegar hann sæi ríkulega útilátinn góðan mat.

Fundurinn var á vegum Menningarmálanefndar og kynnti formaðurinn Guðný Helgadóttir fyrirlesarann Eirík Rögnvaldsson prófessor. Hann hefur verið prófessor í íslensku við Háskóla Íslands frá 1993 og unnið þar frábært starf og fékk á síðasta ári viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu við skólann. Um síðustu áramót veitti forseti Íslands honum svo riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.

Eiríkur nefndi erindi sitt: Talað við tækin-hvað þarf til en hóf mál sitt á að vitna í frétt í Morgunblaðina þann dag þar sem sagt var að börn í grunnskóla í Hafnarfirði væru farin að ræða saman á ensku sem sýndi að aðgerða er þörf í vörn fyrir íslenskuna. Hann nefndi ýmsar breytingar í samfélaginu sem gera stöðu tungunnar erfiðari svo sem ferðamannastrauminn, fjölgun fólks með annað móðurmál, háskólastarf á ensku, alþjóðavæðingu, snjalltækjabyltingu, gagnvirka tölvuleiki, You-Tube og talstýringu tækja.

Íslensk málstefna var samþykkt 2009 en því fer fjarri að henni hafi verið fylgt eftir með fullnægjandi hætti. Þó að ýmislegt hafi verið vel gert er ljóst að nú er þörf róttækra aðgerða sem ekki mega bíða lengi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nú skipað stýrihóp íslenskrar máltækni sem ráðuneytið og Samtök atvinnulífsins skipuðu í. Áætlun stýrihópsins á að liggja fyrir í vor.