Fréttir

15.3.2017

Nemendur með sérþarfir

Tómas Jónsson

Rótarýfundurinn 14. mars var í umsjón Ungmennanefndar en formaður hennar er Guðmundur Þ. Harðarson. Fyrirlesari á fundinum var Tómas Jónsson fulltrúi skólaþjónustu grunnskóla Kópavogs og fjallaði hann um nemendur með sérþarfir í Kópavogi. Þriggja mínútna erindi flutti Margrét María Sigurðardóttir.

Forseti flutti "Lítið ljóð" eftir Ísak Harðarson og upplýsti síðan um bréf sem honum hafa borist. Í öðru þeirra bauð Anton Máni Svansson sem er framleiðandi kvikmyndarinnar Hjartasteins rótaryfélögum afslátt á sýningar á myndinni og kynningu á henni ef næg þáttaka fengist.  Anton er forseti Rótaryklúbbsins e-rótary Ísland. Í hinu bréfinu sem var frá Birnu Bjarnadóttur í Borgum var lagt til að rótaryklúbbarnir stæðu saman að því að láta baka köku fyrir klúbbana á Rótarydaginn.

Forseti tilkynnti að fyrrverandi forseti klúbbsins Guðmundur Óskarsson sem var forseti 1973 - 1974 væri látinn og minntust fundarmenn hans með stuttri þögn. Ásgeir Jóhannesson sagði að Guðmundur hefði á sínum tíma unnið mjög gott starf í æskulýðsmálum fyrir Rótaryhreyfinguna.

Guðmundur Þorvarðarson kom með safn Jólamerkja Rótary sem hann óskaði eftir að einhver félagi tæki við og fyndi út hvernig með skyldi fara og töldu fundarmenn  að Eiræikur Líndal væri heppilegastur í það verkefni.

Þriggja mínútna erindi flutti Margrét María og sagði hún frá þáttöku sinni í eftirliti með kosningum í Montenegro í haust þar sem fram fóru bæði kosningar til sveitarstjórna og þings. Þetta hefði verið reynsla sem hún hefði ekki viljað missa af. Hún fékk ágæta kynningu á landi og þjóð einkum stjórnmálaástandi og því sem máli skipti í kosningum. Hún sagði að ekki hefði verið talið að um beint kosningasvindl hefði verið að ræða en ljóst var að atkvæði voru seld í stórum stíl og spilling í landinu væri mjög mikil.

Fundurinn var á vegum Ungmennanefndar og kynnti Björgvin Skafti fyrirlesarann Tómas Jónsson sem er fulltrúi hjá skólaþjónustu Kópavogs en hann hefur starfað hjá Menntasviði Kópavogs frá 1996.

Erindi Tómasar fjallaði um úrræði Menntasviðs Kópavogs fyrir nemendur með sérþarfir og var mjög yfirgripsmikið og ítarlegt. Starfið byggir á skóla án aðgreiningar þar sem allir nemendur eiga rétt á að fá nám við sitt hæfi í sínum heimaskóla.  Í Kópavogi eru tæplega 5000 nemendur í 9 grunnskólum og fá um 25% þeirra stuðning í einhverju formi. Mjög margar og mismunandi birtingamyndir eru á þeim skerðingum og frávikum sem valda þessum sérþörfum en allar geta þær haft áhrif á sjálfsmynd nemandans. Í heild eru 145 sérkennarar sem sinna þessum málum og er kostnaður við það um milljarður króna á ári en um 1,3% nemenda eru með svo miklar sérþarfir að þeir geta ekki verið í hinu almenna kerfi.

Í umræðum á eftir kom fram að afburðanemendur fengju ekki þá hvatningu sem þeir þyrftu hvorki í Kópavogi né á landinu í heild.