Fréttir

2.3.2017

Gelísk orð í íslensku, sem ekki finnast í öðrum norðurlandamálum

Þorvaldur Friðriksson

Rótarýfundurinn 28. febrúar var í umsjón Starfsþjónustunefndar en formaður hennar er Kristófer Þorleifsson. Fyrirlesari á fundinum var Þorvaldur Friðriksson sagnfræðingur og fornleifafræðingur og nefndi hann fyrirlestur sinn: Gelísk orð í íslensku sem ekki finnast í hinum norðurlandamálunum. Þriggja mínútna erindi flutti Magnús Már Harðarson.

Mæting á fundinum var 57%. Fundurinn var í umsjón Starfsþjónustunefndar og fyrirlesari var Þorvaldur Friðriksson sagnfræðingur og fornleifafræðingur.

Forseti bauð fyrirlesara velkominn og flutti síðan ljóðið „Land, þjóð og tunga“ eftir Snorra Hjartarson.

Þriggja mínútna erindi flutti Magnús Már Harðarson. Hann fjallaði  um vinnumarkaðinn á Íslandi og minntist meðal annars á stækkandi hóp fólks með örorku og skerta starfskrafta og áhyggjur sínar því samfara.

Kristófer Þorleifsson formaður Starfsþjónustunefndar kynnti fyrirlesara dagsins, Þorvald Friðriksson sagnfræðing og fornleifafræðing.  Í erindi sínu fjallaði Þorvaldur um gelísk orð í íslensku sem ekki finnast í hinum norðurlandamálunum. Það ásamt öðru svo sem erfðarannsóknum sýndi fram á stærri hlut kelta í uppruna Íslendinga en sagan gerir ráð fyrir. Landnáma og Íslendingabók eru gagngert ritaðar til að halda fram norrænum uppruna Íslendinga, að þeir séu ekki af þrælakyni eins og stendur þar.

Þorvaldur fór hringferð um landið og benti á fjölda örnefna sem ættu rætur í gelísku, s.s. Esja, Katla, Ípishóll, Skilmannahreppur, Skeið, Rangá o.fl. o.fl. Nöfn á húsdýrum svo sem gemlingur, hrútur, ær, svo eitthvað sé talið og strákur og stelpa flutu með.

Þorvaldur talaði einnig um fjölmörg minni í  íslenskum þjóðsögum sem einungis þekkjast í keltneskum frásögnum og þann mikla bókmenntaarf sem keltnesk klausturkristni geymdi og ætti sér svipaða sérstöðu og arfur okkar sem rekjum ættir okkar til  Melkorku og annarrra keltneskra höfðingja og almúafólks sem Norðmenn hnepptu í þrældóm. Og til Norðmanna líka svo gætt sé sannmælis.