Fréttir

18.2.2017

Rótarýfræðsla

Guðmundur Jens Þorvarðarson

Rótarýfundurinn 14. febrúar var á vegum Rótarýfræðslunefndar. Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri flutti hugvekju. Karl Kristjánsson hélt 3ja mínútna erindi.

Forseti fór með ljóðið „Góður gestur á Bakka“ eftir Þórarinn Eldjárn.

Þriggja mínútna erindi flutti Karl Kristjánsson. Hann fjallaði um störf alþingismanna fyrr og nú. „Heimur versnandi fer“ er stórlega orðum aukið að mati Karls. Birtingarmyndirnar kunna að breytast en margt er líkt með skyldum. Til dæmis einkenndist málþóf á árum áður af löngum ræðum fárrra, en nú tala fleiri í skemmri tíma hver.

Jón Höskuldsson formaður Rótarýfræðslunefndar kynnti  fyrirlesara dagsins. Áður en hann gaf Guðmundi Jens orðið sagði hann frá reynslu sinni af Rótarý sem félagi í landsbyggðarklúbbum. Þeir gáfu honum mikið en lognuðust því miður út af og verða vonandi endurlífgaðir.

Guðmundur Jens, félagi okkar og umdæmisstjóri 2016-2017, ræddi um reynslu sína af starfi umdæmisstjóra síðasta hálfa árið. Það hefur vakið athygli hans hve starfið í fámennum klúbbum á landsbyggðinn er víða þróttmikið og góð mæting. Í fjölmennari klúbbum á höfuðborgarsvæðinu væri hins vegar lítil mæting áhyggjuefni. Alþjóðahreyfingin hefur m.a. vegna þessa slakað á kröfum um fundafjölda, í stað vikulegra funda er nú mögulegt að funda tvisvar í mánuði auk þess sem taka má lengra fundahlé yfir sumartímann. Með þessu móti ætti að vera mögulegt að fá fleira yngra fólk til þátttöku, þ.e. minni tími færi í starfið og minni kostnaður. Guðmundur Jens kom víðar við í fróðlegum fyrirlestri. Hann lagði áherslu á aukið kynningastarf sem yrði m.a. inntak Rótarýdagsins þann 6. maí n.k. Hann sagði m.a. nauðsynlegt að kynna betur mánnúðarstarf hreyfingarinnar á alþjóðavettvangi, þar ber hæst Pólíóverkefnið og því yrði seint fulllokið.

Góður rómur var gerður að máli umdæmisstjóra. Fyrirspurnir komu frá Guðmundi Ólafssyni, Kristófer Þorleifssyni, Helga Sigurðssyni og Ólafi Wernerssyni.  Þar var m.a. rætt um mikilvægi Pólíóverkefnsins en bólusetningarnar hafa víðtæk áhrif og stuðla að auknu almennu heilbrigði. Fram kom hugmynd sem gæti aukið þátttöku á fundum að færa þá af og til í heimahús með viðeigandi hressandi veitingum. Það væri vissulega í anda Ivan Petrovich Pavlov.