Fréttir

30.1.2017

Thors saga Jensen - ferð á Landnámssetrið í Borgarnesi

Rótarýfundurinn 31. janúar var í umsjón Ferðanefndar en formaður hennar er Sigurjón Sigurðsson. Á fundinum var kynning á fyrirhugaðri ferð á Landnámssetrið í Borgarnesi næstkomandi laugardag þar sem snæddur verður  kvöldverður og hlýtt á Guðmund Andra fara yfir Thors sögu Jensen. Þriggja mínútna erindi flutti Jón Ögmundsson.

Forseti fór með ljóð eftir Gísla Brynjólfsson sem hann orti til Konráðs Gíslasonar.

Þriggja mínútna erindi flutti Jón Ögmundsson. Hann ræddi um eftirmál uppgjörs vegna Stórtónleika Rótary og fór yfir ýmsar tölur í því sambandi. Samskipti við starfsfólk Hörpu var mjög gott og náðust góðir samningar á þeim vettvangi enda voru tónleikarnir eini atburðurinn í Hörpu það kvöld. Tveir ungir tónlistamenn fengu styrk frá Rótary og sá rótaryklúbbur Kópavogs um annan styrkinn en Tónlistarsjóður Rótary sá um hinn en sjóðurinn hefur engan fastan tekjustofn. Jón taldi að þetta fyrirkomulag þyrfti að endurskoða meðal annars vegna þess að forsvarsmenn klúbbanna væru ekki nógu ötulir við hvetja menn til að mæta á tónleikana sem væru einn stærsti atburður hreyfingarinnar á hverju ári.

Þá tók Ásgeir Jóhannesson til máls en það var í hans umdæmisstjóratíð sem fyrstu tónleikarnir voru haldnir. Þá þurfti að halda tvenna tónleika í Salnum í Kópavogi vegna mikillar aðsóknar en tónleikarnir voru lengst af haldnir þar.

Fundurinn var á vegum Ferðanefndar og kynnti formaður hennar Sigurjón Sigurðsson fyrirhugaða ferð sem verður í Landnámssetrið í Borgarnesi 4. febrúar. Farið verður í rútu í Borgarnes og þar snæddur kvöldverður áður en dagskráin á Landnánssetrinu hefst. Eftir nokkrar umræður á fundinum var ákveðið að kostnaður við rútuferðina yrði greiddur af klúbbnum.

Sigurjón ræddi aðeins um ferð innanlands í haust sem hann var aðeins farinn að huga að. Þar sagði hann að þegar leitað væri eftir gistingu fyrir 30 manns eða meir þá væri víðast komið að lokuðum dyrum þó að verðið væri komið upp úr öllu valdi.