Fiskeldi á Íslandi
Valdimar Ingi Gunnarsson
Rótarýfundurinn 24. janúar var í umsjón Þjóðmálanefndar en formaður hennar er Ólafur Wernersson. Fyrirlesari á fundinum var Valdimar Ingi Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur og nefndi hann erindi sitt: Fiskeldi á Íslandi, umsvif og þróun næstu ár. Þriggja mínútna erindi flutti Jón Sigurðsson.
Í upphafi fundar fór forseti með Minningarljóð um Birnu Brjánsdóttur eftir Friðrik Erlingsson sem birtist í Morgunblaðinu þann sama dag.
Formaður Ferðanefndar Sigurjón Sigurðsson sagði að Ferðanefnd stefndi að ferð á Landnámssetrið í Borgarnesi fyrri hluta febrúar. Nánar verður greint frá ferðinni á næsta fundi sem Ferðanefnd sér um, en hann lét ganga lista til að sjá áhuga klúbbfélaga.
Þriggja mínútna erindi flutti Jón Sigurðsson. Hann sagðist vilja halda áfram með þá umræðu sem Jóhann hóf fyrr í mánuðinum um stöðu íslenskrar tungu. Þar sem aðal samskipti síaxandi hluta þjóðarinnar er um tölvur og önnur handhægari snjalltæki er mikil nauðsyn að koma íslensku að sem samskiptamáli á því sviði. Jón taldi að þar þyrftum við að leggja fram 2 milljarða króna á nokkrum árum ef íslenska á ekki að víkja. Hann nefndi líka að um þessar mundir móti fjölmiðlamenn málið að miklu leyti og þeir standa sig ekki nógu vel í því verkefni.
Fundurinn var á vegum Þjóðmálanefndar og kynnti Guðbergur Rúnarsson fyrirlesara dagsins. Valdimar Ingi Gunnarsson er sjávarútvegsfræðingur með próf frá Háskólanum í Tromsö, en hann á og rekur Sjávarútvegsþjónustuna ehf. Guðbergur nefndi mikinn fjölda starfa og verkefna í tengslum við fiskeldi sem Valdimar hefur sinnt. Valdimar skilgreindi orðið lagareldi sem nær ekki aðeins yfir fiskeldi heldur einnig skelfiskeldi og þörungaeldi. Hann lagði áherslu á hversu lítið fiskeldið á íslandi væri. Í allri Evrópu er einungis 4% af lagareldi í heiminum, en mest af því er í Austur Asíu sérstaklega í Kína. meiri hluti eldis í heiminum í dag er landeldi en hlutur sjókvíaeldis fer vaxandi. Fiskeldi á Íslandi hefur verið stundað í talsverðan tíma en gengið brösulega. Það er helst bleikjueldi sem hefur vaxið jafnt og þétt frá upphafi, en nú eru mikil áform um mikla aukningu í laxeldi í sjó á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði.