Fréttir

18.1.2017

Kynlíf í Íslendingasögum

Óttar Guðmundsson

Rótarýfundurinn 17. janúar var í umsjón Starfsþjónustunefndar en formaður hennar er Kristófer Þorleifsson. Ræðumaður dagsins var Óttar Guðmundsson, geðlæknir, sem fjallaði um kynlíf í Íslendingasögunum og nýútkomna bók sína: "Frygð og fornar hetjur". Þriggja mínútna erindi flutti Jón Höskuldsson.

Jón Höskuldsson hóf 3ja mínútna erindi sitt á að lesa upp úr Handbk Rótaryhreyfingarinnar sem kom út 1967. Í framhaldi af því rifjaði hann upp að ári síðar eða 1968 stóð hann að því ásamt nokkrum öðrum að stofna Rótaryklúbb í Ólafsvík með dyggri aðstoð umdæmisstjóra, sem þá var Guðmundur Sveinsson skólastjóri Samvinnuskólans á Bifröst, og félaga úr Rótaryklúbbi Stykkishólms. Jón var á þeim tíma félagi í Rótaryklúbbi Stykkishólms en gerðist svo skólastjóri á Hellissandi. Rótaryklúbburinn í Ólafsvík starfaði í um fjóra áratugi þar til hann gafst upp og það hefur klúbburinn í Stykkishólmi raunar einnig gert eins og margir aðrir klúbbar á landsbyggðinni.

Fundurinn var á vegum Starfsþjónustunefndar þar sem Kristófer Þorleifsson er formaður. Kristófer kynnti fyrirlesarann Óttar Guðmundsson lækni  sem lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og stundaði síðan læknanám og var í framhaldsnámi í lyflækningum æi Svíþjóð. Síðar sneri hann sér að geðlækningum  en á síðari árum hafa ritstörf verið stöðugt fyrirferðameiri í störfum Óttars en á sviði læknisfræðinnar hefur hann snúið sér æ meira að vandamálum þeirra sem fara í kynleiðréttingu.

Í fyrirlestri sínum fór Óttar yfir svipað efni að tekið er fyrir í nýútkominni bók hans "Frygð og fornar hetjur". Kynlíf í Íslendingasögum, en líta má á þá bók sem framhald bókarinnar "Hetjur og hugarvíl". Geðsjúkdómar og persónuleikaraskanir í Íslendingasögum, sem kom út fyrir 4 árum. Óttar tók fram að ekki væri mikið skrifað um kynlíf og ástir sögupersóna í Íslendingasögum enda hefur kristnin litið á kynlíf sem aðferð til að halda við mannkyninu en óæskilegt í öðrum tilgangi. Hann fór þó yfir nokkur tilfelli þar sem talað var um kynlíf, oftast undir rós einkum í Njálu þó önnur rit hafi einnig komið við sögu.

Óttar vakti sérstaka athygli á hversu algerlega litið var á konur sem eign karlmanna, föður, eiginmanns, sona eða jafnvel fjarskilds ættmennis. Þetta gekk svo langt að menn voru jafnvel taldir réttdræpir ef þeir sýndu áhuga á nánari kynnum við stúlku eða konu án heimildar eiganda. Einnig sagði hann sögu af því þegar dóttir Hallgerðar langbrókar barnung fór í brúðkaup móður sinnar og kom þaðan harðgift kona eftir samningaviðræður viðstaddra karlmanna.