Fréttir

12.1.2017

Þjóðminjar

Margrét Hallgrímsdóttir

Rótarýfundurinn 10. janúar var í umsjón Menningarmálanefndar en formaður hennar er Guðný Helgadóttir. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður fjallaði um nýútkomna bók um þjóðminjar. Þriggja mínútna erindi flutti Jóhann Árnason.

Jóhann Árnason fjallaði í 3ja mínútna erindi sínu um stöðu íslenskrar tungu í nútímasamfélaginu og í gegnum tíðina. Það hafa margir landar okkar leiknir sem lærðir  stórar áhyggjur af því, hvernig íslenskri tungu kemur til með að reiða af á næstu áratugum eða árhundruðum í harðri samkeppni við t.d. enska tungu.

Við sem að unnum íslenskri tungu áttum okkur á að við íslendingar erum ekki lengur einangruð þjóð, sem býr á eyju norður í höfum og því verðum við að vera dugleg við  að finna leiðir til að viðhalda íslenskunni á öllum sviðum.

Guðný Helgadóttir formaður Menningarmálanefndar kynnti fyrirlesara  fundarins; Margréti Hallgrímsdóttur Þjóðminjavörð .

Umfjöllunarefni Margrétar í erindi sínu  var nýútkomin bók  hennar, sem ég vil kalla algjöran kjörgrip fyrir fróðleiksfúsa, sem vilja fræðast um  allt er varðar Þjóðminjasafn Íslands, bæði í máli og myndum, allt frá stofnun safnins, sem var árið 1863 og til dagsins í dag.

Hún fjallaði einnig um þjóðminjavörslu á Íslandi með erindi, sem gaf innsýn í langa og viðburðarríka sögu Þjóðminjasafns Íslands,  lögbundið hlutverk stofnunarinnar  og margþætt viðfangsefni á sviði varðveislu, rannsókna og miðlunar þjóðminja. Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði menningarminja og varðveitir ríkulegt safn muna og jarðfundinna gripa, heimilda um þjóðlíf, ljósmyndir og hús um allt land. Þjóðminjasafnið er leiðandi fyrir safnastarf í landinu, og á í víðtæku samstarfi við sveitarfélög um menningarstarf m.a. í tengslum við hús Þjóðminjasafns, sem gjarnan hýsa söfn á hverju svæði. Margrét greindi frá mikilvægi samstarfs stofnana og samtals við almenning, enda væri Þjóðminjasafnið fjölsóttur almannavettvangur borgaranna á öllum aldri og erlendra gesta en tæplega 200.000 gestir sækja safnið heim á ári hverju.