Fréttir

12.12.2016

Þróun sjávarútvegs-gömul og ný tækifæri

Sigurjón Arason

Rótarýfundurinn 13. desember var í umsjón Starfsþjónustunefndar en formaður hennar er Kristófer Þorleifsson. Fyrirlesari var Sigurjón Arason prófessor og yfirverkfræðingur og nefndi hann erindi sitt:  Þróun sjávarútvegs-gömul og ný tækifæri.  Þriggja mínútna erindi flutti Ingólfur Antonsson.

Í upphafi fundar fór forseti með tvö stutt jólakvæði eftir Þórð Helgason.

Forseti upplýsti að tekin hefði verið fyrir á stjórnarfundi í klúbbnum beiðni frá ungri stúlku Vigdísi Elvu Hermannsdóttur um að hún færi sem skiptinemi til útlanda á vegum klúbbsins, en þær kvaðir sem þetta legði á klúbbinn væri að taka á móti erlendum skiptinema síðar. Jafnframt minnti hann á að nú væri erlendur skiptinemi hér sem þyrfti að fá nýtt heimili næstu mánuði og klúbbfélagar mættu gjarnan bjóða honum heim eða gera eitthvað fyrir hann til tilbreytingar.

Jón Ögmundsson minnti á að það styttist í Stórtónleika Rótary sem væri stærsti atburður sem  við ættum eftir að sjá um á starfstíma Guðmundar Jens sem umdæmisstjóra. Hann hafði kynnt sér hve margir hefðu keypt miða nú þegar en þeir væru einungis 50 en þyrftu að vera a.m.k. 300 og hvatti alla félaga til að koma á tónleikana.

Þriggja mínútna erindi flutti Ingólfur Antonsson og gerði hann að umtalsefni myglusveppi sem eru margumræddir vágestir í byggingum nútímans en hafa sérstaklega komið inn í umræðuna þegar fjöldi íbúða á ýmsum svæðum eru óíbúðarhæfar vegna myglu. Ýmis óáran hefur lengi valdið vandræðum en mygla er tiltölulega nýtt vandamál í íslenskum byggingum en það hefur farið vaxandi síðustu 50 árin aðallega vegna breyttra aðferða í byggingum. Ingólfur flutti fræðilegt erindi um efnið og taldi það ekki hjálpa til við lausn vandans að leggja niður Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins sem hefði átt að sinna svona málum.

Fundurinn var á vegum Starfsþjónustunefndar og kynnti formaðurinn Kristófer Þorleifsson fyrirlesarann Sigurjón Arason sem var fæddur á Neskaupstað 1951 og er skyldur þeim bræðrum Kristófer og Sigfinni.  Sigurjón er prófessor í matvælaverkfræði við HÍ og yfirverkfræðingur hjá Matís.

Starfsferill Sigurjóns hefur alfarið snúist um framfarir í sjávarútvegi og í upphafi erindis síns sem hann nefndi Þróun í Sjávarútvegi- gömul og ný tækifæri setti Sigurjón fram kaflaskipti á því sem starf hans snérist um í rúma þrjá áratugi.   

1980: Bjarga verðmætum - 1990: Leysa vandamál - 2000: Þróa lausnir  - 2010: Innleiða verkferla

Í raun hefur starfið snúist um að auka eins og mögulegt hefur verið verðmæti þess afla sem komið hefur úr sjó bæði með því að nýta alla hluti fiskjarins og að finna bestu mögulega leið til að hámarka verðmæti afurðanna. Grundvallaratriði er góð meðferð og kæling aflans alveg frá því hann kemur úr sjó og þar til hann er kominn á borð neytandans.