Sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi
Ágúst Einarsson
Rótarýfundurinn 6. desember var í umsjón Þjóðmálanefndar. Ræðumaður dagsins var Ágúst Einarsson. Þriggja mínútna erindi flutti Helgi Sigurðsson.
Fundurinn var ekki á venjulegum stað heldur að Bæjarlind 14 á 2. hæð.
Fundurinn var haldinn í sal á annarri hæð að Bæjarlind 14. Forseti hóf fundinn með kvæði eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson sem hann kallaði Aðventuljóð.
Þriggja mínútna erindi flutti Helgi Sigurðsson og gerði að umtalsefni bókina Kapitalið á 21. öldinni eftir hagfræðinginn Thomas Piketty. Í bókinni kom fram að sú rosalega auðsöfnun sem nú á sér stað í heiminum á fáar hendur sé mjög hættuleg fyrir mannkyn allt. Ef þessi þróun heldur áfram eins og undanfarin ár stefnir í óöld þar sem aðrir hópar munu ekki lengur sætta sig við þessar breytingar. Nú er eign þess 1% sem mest á komin yfir 20% af verðmætum. Helgi taldi breytingu á skattakerfi nauðsynlega og vildi færa skattheimtu meira frá tekjuskatti yfir á eignaskatta, en taldi þó hátekjuskatta fyllilega réttlætanlega.
Fundurinn var í umsjón þjóðmálanefndar og kynnti Guðbjartur Rúnarsson fyrirlesarann Dr. Ágúst Einarsson prófessor emeritus. Ágúst er með doktorspróf í hagfræði frá Háskólanum í Hamborg 1978 og hefur komið víða við í atvinnulífinu síðan. Hann var prófessor við HÍ og síðar við háskólann á Bifröst þar sem hann var einnig rektor. Hann var alþingismaður um tíma en að öðru leiti hefur starf hans aðallega tengst sjávarútvegi.
Ágúst nefndi erindi sitt " Sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi" sem er janframt heiti á nýútkominni bók eftir hann. Hann sagði að á árum áður hefði verið unnið gegn uppbyggingu sjávarútvegs hérlendis enda hófst ekki sjávarútvegur á Íslandi fyrr en á 19. öld þrátt fyrir að erlendir aðilar hafi stundað veiðar við Ísland frá 14. öld. Ágúst rakti síðan þær miklu framfarir sem átt hafa sér stað í sjávarútvegi undanfarna áratugi þar sem útfærsla landhelginnar var grundvallaratriði. Heimsafli úr sjó er núna um 90 milljón tonn á ári og breytist lítið milli ára en fiskeldi hefur á fáum árum vaxið upp í svipað magn og taldi hann að þar hefðum við ekki fylgst nægilega með og haldið okkur meðal þeirra fremstu eins og á öðrum sviðum greinarinnar.