Stjórn klúbbsins starfsárið 2017-2018
Rótarýfundurinn 22. nóvember var á vegum stjórnar klúbbsins. Ný stjórn fyrir starfsárið 2017- 2018 var kosin. Þriggja mínútna erindi flutti Ásgeir Jóhannesson.
Í upphafi fundar las forseti ljóð eftir Anton Helga Jónsson sem fjallaði um leiðinlegt fólk sem höfundi fannst mjög skemmtilegt.
Á fundinum fór fram kosning stjórnar fyrir starfsárið 2017-2018 og verður stjórn klúbbsins skipuð eftirtöldum félögum.
Jón Emilsson forseti
Friðbert Pálsson varaforseti
Sigurjón Sigurðsson ritari
Ingólfur Antonsson gjaldkeri
Jóhann Þórður Guðmundsson stallari
Þriggja mínútna erindi flutti Ásgeir Jóhannesson og minntist hann tveggja atburða sem gerðust 22. nóv. Annar atburðurinn var dauði Kennedys árið 1963 en um þann atburð hefur líklega fyrir löngu verið sagt allt sem um hann er að segja. Hinn atburðurinn var árið 1952 þegar Ásgeir fór í rútu til Ólafsvíkur til að taka við nýju starfi og tók ferðin 7 tíma og tuttugu mínútur eða um 5 tímum meira en tekur að aka á milli sömu staða í dag.
Ásgeir tileinkaði erindið "Dugnaði íslensku Þjóðarinnar"og vísaði þar til þeirra gífurlegu breytinga sem orðið hefðu á öllum sviðum síðan þetta var. Vegakerfið var þannig að einungis ein leið var til Ólafsvíkur og ekkert vegasamband milli þorpanna á norðanverðu Snæfellsnesi. Bátar komu í land þar sem flæddi undan þeim og komust þeir aðeins út á öðru flóði, rafmagn var frá dísilvél sem slökkt var á kl. 12 á kvöldin og svo mætti lengi telja.
Ásgeir taldi litlar líkur á að aðrar eins framfarir yrðu á næstu 50 árum enda gæti hann varla ímyndað sér hvernig þjóðfélagið liti út eftir þær breytingar.