Rótarýfundur á umdæmisþingi
Guðni Ágústsson
Rótaryfundurinn 14. október var sérstakur hátíðarfundur, sem haldinn var í Gerðarsafni í tilefni Umdæmisþingsins sem haldið var í Kópavogi þessa helgi, en þinghaldið var í höndum Rótaryklúbbs Kópavogs. Sérstakir heiðursgestir voru Rob Klerkx sem var fulltrúi alþjóðaforseta Rótary og eiginkona hans og Peter Juhlsgaard Jepsen og hans eiginkona. Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra var aðalræðumaður kvöldsins og mætti hann ásamt eiginkonu sinni Margréti Hauksdóttur. Auk þeirra var fjöldi gesta sem voru rótaryfélagar úr öðrum klúbbum og makar rótaryfélaga.
Fyrsti ræðumaður kvöldsins var Rob Klerkx sem flutti kveðjur frá alþjóðaforseta Rótary. Hann var áður umdæmisstjóri í Hollandi og þakkaði fyrir boðið hingað sem hann taldi mikinn heiður að geta þegið. Í ræðu sinni fór hann yfir ýmis atriði sem eru á döfinni hjá rótaryhreyfingunni og það kom fram í máli hans að það væri ekki bara á Íslandi sem menn horfðu á að það fækkaði félögum í hreyfingunni, sama vandamálið væri í flestum löndum þar sem hreyfingin hefur starfað lengi. Í lok ræðu hans skiptust hann og Jón Emilsson á fánum klúbbanna.
Næst talaði Peter Juhlsgaard Jepsen sem er umdæmisstjóri Rótary á Sjálandi utan Kaupmannahafnar. Hann flutti Rótarykveðjur frá Danmörku og þakkaði fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma hingað á þetta þing. Peter og Jón Emilsson skiptust einnig á fánum í lok erindis hans. Þess má geta að báðir þessir aðilar höfðu flutt sínar aðalræður á Umdæmisþinginu í Digraneskirkju fyrr um daginn.
Þriðji ræðumaður kvöldsins var Ólafur Tómasson sem er sá félagi í Rótaryklúbbi Kópavogs sem lengst hefur verið í klúbbnum eða í 53 ár. Hann sagði frá þáttöku sinni í klúbbstarfinu í þennan tíma og nefndi að þó oft hefði verið erfitt að fara úr vinnu rúmlega klukkutíma í hverri viku þá teldi hann að þeim tíma hefði alls ekki verið illa varið séð frá sjónarhóli vinnuveitanda. Ólafur lauk erindi sínu með því að óska Guðmundi Þorvarðarsyni umdæmisstjóra velfarnaðar í starfi.
Aðalræðu kvöldsins flutti Guðni Ágústsson. Guðni sagðist mjög hrifinn af boðskap Rótary og nefndi þar sérstaklega fjórprófið og sagði að trúlega hefði hann gengið í rótary ef hann hefði kynnst hreyfingunni fyrr. Hins vegar hefði hann fengið næga útrás fyrir sína félagsmálaþörf í þeim þrem félögum sem hann hefði starfað í sem eru Ungmennafélagshreyfingin, Þjóðkirkjan og Framsóknarflokkurinn. Guðni hélt síðan ágætis ræðu, sem var hæfileg blanda af gamni og alvöru, við góðar undirtektir viðstaddra.